Fulltrúar stjórnarflokkana á sænska þinginu og stjórnarandstaðan hafa hist á leynilegum fundum undanfarið og rætt hvernig hægt sé að koma í veg fyrir stjórnarkreppu í landinu. Boðað hefur verið til þingkosninga í mars þar sem minnihlutastjórninni, undir forsæti Stefans Löfvens, tókst ekki að koma fjárlagafrumvarpinu í gegn.
Greint var frá viðræðunum í sænskum fjölmiðlum í morgun en formenn flokkana hafa ekki tekið þátt í þeim. Af hálfu ríkisstjórnarinnar situr fjármálaráðherra landsins, Magdalena Andersson fundina og af hálfu borgaraflokkanna eru það þeir sem hafa sérhæft sig í efnahagsmálum sem taka þátt, að því er fram kemur á vef sænska ríkisútvarpsins.
Upplýsingafulltrúi forsætisráðherra, Erik Nises, staðfestir við DN.se að viðræðurnar standi yfir og að einkum sé rætt um varnarmál, utanríkisstefnu ofl á fundunum.