Kosningum afstýrt með desembersamkomulagi

Stefan Löfven verður forsætisráðherra áfram.
Stefan Löfven verður forsætisráðherra áfram. AFP

Ríkisstjórn Svíþjóðar heldur velli og hætt hefur verið við fyrirhugaðar auka þingkosningar þann 22. mars. Samkomulag stjórnarflokkanna og borgaraflokkanna í stjórnarandstöðinni hefur fengið heitið „desembersamkomulagið“.

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, kynnti samkomulagið á blaðamannafundi sem er ný lokið í Stokkhólmi. Hann sagði á fundinum að þeir sem væru þar (fulltrúar stjórnar- og stjórnarandstöðunnar) væru reiðubúnir til þess að axla ábyrgð á stjórn landsins. 

Hann segir að meginmarkmið samkomulagsins sé að tryggja að minnihlutastjórnin sem er við völd geti starfað áfram en ákveðið var að boða til kosninga þar sem stjórnin fékk ekki fjárlagafrumvarp næsta árs samþykkt í þinginu nýverið.

Fulltrúar allra stjórnmálaflokka á sænska þinginu, fyrir utan Vinstri flokkinn og Svíþjóðardemókrata, sátu blaðamannafundinn í morgun. 

183 þingmenn greiddu atkvæði gegn fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar í byrjun desember og 152 með því og fjárlagafrumvarp stjórnarandstöðunnar var samþykkt með 183 atkvæðum. Niðurstaðan kom ekki á óvart þar sem Svíþjóðardemókratar höfðu tilkynnt daginn áður að þeir hygðust fella stjórnarfrumvarpið og þar með stjórnina.

Í kosningunum í september fengu Jafnaðarmannaflokkurinn og Umhverfisflokkurinn 138 af 349 þingsætum. 

Borgaralegu flokkarnir fjórir eru með alls 141 sæti og vantar 34 til að ná meirihluta. Svíþjóðardemókratarnir eru með 49 þingsæti en allir hinir flokkarnir hafa hafnað stjórnarsamstarfi við hann, m.a. vegna ásakana um að hann ali á kynþáttahatri.

Flokkurinn á rætur að rekja til hreyfinga sem voru bendlaðar við nýnasisma. Nokkrir forystumanna hans hafa verið sakaðir um kynþáttahyggju og einn þeirra sagði af sér fyrir síðustu kosningar eftir að birtar voru myndir af honum með armbindi nasista. Leiðtogi flokksins, Jimmy Åkesson, sem er í veikindafríi, hefur reynt að breyta ímynd flokksins með því að víkja frá stjórnmálamönnum sem hafa verið sakaðir um útlendingahatur eða stuðning við nasisma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka