Komast ekki hjá umræðu um flóttafólkið

Stefan Löfven
Stefan Löfven AFP

Stjórnarflokkarnir tveir og mið- og hægriflokkarnir fjórir, sem voru við völd í Svíþjóð á síðasta kjörtímabili, hafa náð samkomulagi um samstarf á þingi landsins til að auðveldara verði fyrir minnihlutastjórn að halda völdunum. Samkomulagið felur ennfremur í sér að ekki verður efnt til aukaþingkosninga 22. mars eins og Stefan Löfven forsætisráðherra hafði boðað eftir að Svíþjóðardemókratarnir felldu fjárlagafrumvarp minnihlutastjórnar Jafnaðarmannaflokksins og Umhverfisflokksins fyrr í mánuðinum.

Meginmarkmiðið með samkomulaginu er að einangra frekar Svíþjóðardemókratana og draga úr áhrifum flokksins eftir að hann komst í oddastöðu á þinginu í kosningum í september. Hann varð þá þriðji stærsti flokkur landsins, með tæpra 13% fylgi, eftir að hafa lagt áherslu á andstöðu við stefnu sænskra stjórnvalda í innflytjendamálum. Skoðanakannanir benda til þess að fylgi flokksins myndi aukast um nokkur prósentustig til viðbótar ef kosið væri nú.

Camilla Sandström, lektor í stjórnmálafræði við Umeå-háskóla, segir að með samkomulaginu hafi flokkarnir sex komið í veg fyrir aukakosningar sem hefðu að miklu leyti snúist um innflytjendamálin. „Við hefðum talað mikið um innflytjendamálin út frá forsendum Svíþjóðardemókratanna ef boðað hefði verið til aukaþingkosninga,“ segir Sandström. Hún telur þó að flokkarnir komist ekki hjá því að ræða innflytjendamálin þótt hætt hafi verið við aukakosningar.

Eitt kosningamálanna 2018

Leiðtogar flokkanna kynntu samkomulagið á laugardaginn var og það á að gilda til ársins 2022. Á þeim tíma skuldbinda flokkarnir sig til að greiða ekki atkvæði gegn fjárlagafrumvörpum minnihlutastjórnarinnar, þannig að hún þurfi ekki að reiða sig á stuðning Svíþjóðardemókratanna. Þeir lofa því einnig að starfa saman í varnar-, lífeyris- og orkumálum.

„Það er svolítið undarlegt að innflytjendamálin skuli ekki vera hluti af samkomulaginu. Það er mjög brýnt að við ræðum þau mál,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Sandström.

Hælisumsóknum hefur fjölgað mjög í Svíþjóð á síðustu árum og fjölgunin er einkum rakin til þess að stjórn mið- og hægriflokkanna ákvað á síðasta kjörtímabili að veita öllum hælisleitendum frá Sýrlandi dvalarleyfi í Svíþjóð. Flestir umsækjendurnir eru flóttamenn frá Sýrlandi en hælisleitendum frá Erítreu hefur einnig fjölgað. Árið 2012 voru hælisumsóknirnar um 44.000, árið eftir 55.000 og í ár er gert ráð fyrir að þær verði 83.000. Talið er að umsóknunum fjölgi í rúm 100.000 á næsta ári.

Flestir Svíar eru stoltir af aðstoð þeirra við flóttafólk frá stríðshrjáðum löndum og Fredrik Reinfeldt, fyrrverandi forsætisráðherra og leiðtogi Hægriflokksins, hefur sagt að landið hafi alla burði til að taka við svo mörgum flóttamönnum. Margir hafa hins vegar kvartað yfir því að Svíar hafi ekki rætt nægilega hvernig taka eigi á afleiðingum þessarar miklu fjölgunar innflytjenda.

Elin Wihlborg, prófessor í stjórnmálafræði við Linköping-háskóla, spáir mikilli umræðu um innflytjendamálin fyrir næstu kosningar árið 2018, meðal annars vegna vandamála sveitarfélaga sem hafa kvartað yfir því að fjölgun innflytjenda hafi stuðlað að miklum húsnæðisskorti.

Stjórnarandstaða veikist

Mikael Gijam, prófessor í stjórnmálafræði við Gautaborgarháskóla, telur að með samkomulaginu við stjórnarflokkana um að greiða ekki atkvæði gegn fjárlagafrumvörpum þeirra hafi mið- og hægriflokkarnir fjórir veikt stöðu sína í því hlutverki að veita stjórninni aðhald. „Virkt lýðræði krefst stjórnarandstöðu sem spyrnir við fótum,“ hefur Svenska Dagbladet eftirGijam. „Hvers vegna ætti stjórnin að gera sitt besta ef hún þarf ekki að vera hrædd við stjórnarandstöðuna?... Í ákveðnum tilvikum kann svo að fara að minnihlutinn ráði ferðinni gegn vilja meirihlutans.“

Anne Kinberg Batra, verðandi leiðtogi Hægriflokksins og forsætisráðherraefni mið- og hægriflokkanna, hefur verið gagnrýnd fyrir að auka áhrif vinstriflokkanna en hún segir samkomulagið vera nauðsynlegt og „sigur fyrir Svíþjóð“.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert