Leggja fram vantrauststillögu

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar. mbl.is/AFP

Þingmenn Svíþjóðardemókrata munu leggja fram vantrauststillögu gagnvart forsætisráðherra Svíþjóðar, Stefan Löfven. „Flokkurinn ber ekkert traust til forsætisráðherra Svíþjóðar,“ segir Matthias Karlsson, starfandi leiðtogi flokksins samkvæmt fréttavefnum The Local.

Svíþjóðardemókratar eru þriðji stærsti flokkur sænska þingsins og beitir sér sérstaklega fyrir strangari stefnu í innflytjendamálum. Flokkurinn olli uppróti stuttu fyrir jól þegar hann kaus gegn fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar en í kjölfarið lýsti Löfven því yfir að hann neyddist til þess að boða til nýrra kosninga.

 Að lokum fór þó svo að ríkisstjórnin náði samkomulagi við aðra hægri flokka þingsins og tilkynnti Löfven að ríkisstjórnin myndi fara eftir fjárlagahugmyndum minni hlutans fram í mars.

Svíþjóðardemókratar segja ástandið í þinginu of viðkvæmt og að Löfven hafi of fá atkvæði á bakvið sig til þess að fylgja stefnumálum sínum eftir.

„Hann hefur svikið langan lista af þungum loforðum og ofar öllu hefur hann forðast að gefa sænsku þjóðinni tækifæri til að hafa áhrif á hvernig þessi flókna þingstaða verður leyst,“ segir Karlsson.

Ólíklegt þykir að tillögur Svíþjóðardemókrata nái fram að ganga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert