Fyrrverandi lögreglumaður frá Tétsníu, sem játaði að hafa tekið þátt í morðinu á rússneska stjórnarandstæðingnum Boris Nemtsov, var sennilega pyntaður til að játa, segir meðlimur í mannréttindaráði Rússlands.
Andrei Babushkin, sem situr í mannréttindaráðinu, segir að ráðið hafi ástæðu til að ætla að Zaur Dadajev hafi játað aðild þegar hann var pyntaður. Hann segir að sár á líkama fangans bendi til þess en Dadajev situr í fangelsi í Moskvu.
Zaur Dadajev var ákærður á sunnudag fyrir aðild að morðinu á Nemtsov ásamt Anzor Gubashev, sem starfar hjá öryggisfyrirtæki í Moskvu. Þeir og þrír aðrir eru í haldi í tengslum við morðrannsóknina.
Babushkin segir að Dadajev hafi sagst hafa játað á sig morðið eftir að hafa setið hlekkjaður með poka á hausnum í tvo sólarhringa. Dadajev var handtekinn í Norður-Kákasushéraði í síðustu viku.
„Þeir öskruðu á mig allan tímann: Þú drapst Nemtsov er það ekki? Ég neitaði,“ segir Babushkin að Dadajev hafi sagt.
Hann hafi að lokum játað á sig morðið til þess að tryggja að fyrrverandi félagi hans, Ruslan Jusupov, yrði látinn laus en hann var einnig í haldi. „Þeir sögðu að ef ég játaði yrði hann látinn laus. Ég féllst á það. Með þessu taldi ég að ég gæti bjargað honum og að þeir flyttu mig lifandi til Moskvu.“
Nemtsov, sem var fyrrverandi aðstoðarforsætisráðherra Rússlands, var einn helsti andstæðingur Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands. Hann var myrtur skammt frá Kreml í febrúar er hann var á göngu ásamt unnustu sinni.