Vangaveltur um heilsu Vladímírs Pútíns forseta Rússlands fóru af stað eftir að fyrirhuguðu ferðalagi hans til Astana í Kazakhstan var aflýst. Heimildir úr innsta hring í stjórnkerfinu þar sögðu að heimsókninni hafi verið aflýst vegna veikinda Pútíns.
Varð þetta til þess að spekúlerað var mjög á samfélagssíðum á netinu hvað hent hefði hinn 62 ára gamla Pútín.
Af hálfu forsetaskrifstofunnar í Kremlarmúrum var því vísað á bug í dag að forsetinn væri veikur. „Hann er á stöðugum fundum, í dag og á morgun og ég veit ekki á hverjum þeirra hann leyfir myndatökur,“ sagði talsmaður Pútíns, Dimitrí Peskov, en engar myndir hafa verið sýndar af forsetanum í sjónvarpi í viku.
Í gær, miðvikudag, var á dagskrá löngu ákveðinn fundur forsetans með sendinefnd héraðsins Suður-Ossetíu sem klauf sig frá Georgíu. „Þeir fóru aldrei í loftið. Þeir voru á leið út á flugvöll um morguninn en fóru ekki alla leið því þeim var sagt að fluginu hafi verið frestað,“sagði embættismaður og bætti við að fundur þessi væri nú áformaður 18. mars.
Blaðið RBK segir að síðustu myndir sjónvarpsins af Pútín séu frá 5. mars er hann fundaði með ítalska forsætisráðherranum Matteo Renzi.
Á vefsíðu Kremlar birtust í gær myndir af Pútín sem sagðar eru teknar 10. og 11. mars og vera frá fundi forsetans með héraðsstjóranum í Karelia. Fréttaþjónustur í Karelía höfðu áður fjallað um þann fund og sagt hann hafa farið fram 5. mars. Rússneska fréttastofan RBC hefur það eftir embættismönnum í Karelíu í dag, að fundurinn hafi í raun farið fram 4. mars.
Í rússneskum stjórnmálum á tímum Sovétríkjanna og síðar hefur ætíð verið að finna frjóan jarðveg fyrir kviksögur og hvísl, ekki síst um heilsufar helstu ráðamanna. Sá leyndarhjúpur sem umlukið hefur þá hefur aðeins verið til að bæta gráu ofan á svart.
Ekki kipptu fjármálamarkaðir sér upp við orðróminn um fjarveru Pútíns og styrktist rúblan ef eitthvað var í dag. Og fjarvera hans af fundi yfirmanna sambandsöryggisráðsins rússneska í dag breytti litlu. Þann fund sækir hann jafnan. „Já, hann er venjulega viðstaddur hann en ákvað að sleppa því í ár,“ sagði talsmaðurinn Peskov.
Síðast þegar heilsufar Pútíns komst í fréttir, árið 2012, þjáðu þrautir í baki forsetann. Þrjár öruggar heimildir voru fyrir þeim veikindum, en Kremlín sagði þá sem nú að ekkert amaði að honum.