Svíþjóðardemókratar stefna í hægristjórn

Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata.
Jimmie Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata. AFP

Leiðtogi Svíþjóðardemókrata, Jimmie Åkesson, fagnar mjög hertum hælisreglum í Svíþjóð og telur að þetta geti orðið til þess að flokkur hans verði hluti af ríkisstjórn hægriflokka í framtíðinni.

Við erum á sigurbraut, vitið þið það? spurði Jimmie Åkesson himinlifandi fundargesti á aðalfundi flokksins í Lundi í dag. Hann segir að mikilvæg stefnumál flokksins, sem einkum berst gegn fjölgun innflytjenda í Svíþjóð, séu farin að sjást í stefnu ríkisstjórnar landsins undir forsæti jafnaðarmannsins Stefan Löfven.

Hann segir að Svíþjóðardemókratar hafi fyrir löngu markað stefnu sína og nú séu aðrir flokkar að fylgja í sömu átt - en þeir séu með hnífinn um hálsinn.

Åkesson segir að bæði Moderateflokkurinn og Kristilegir demókratar séu að taka harðari afstöðu þegar kemur að innflytjendum og landamæraeftirliti og því sé ljóst að staða flokks hans á jaðrinum verði fljótlega á enda.

Því meira sem þeir taka upp eftir okkur því lægri verður þröskuldurinn sem þeir þurfa að fara yfir og ræða við okkur, segir Åkesson.

SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert