Fylgi sænskra jafnaðarmanna hefur aldrei mælst jafn lítið og nú eða 23,3% samkvæmt skoðanakönnun Sifo sem birt var í dagblöðunum Svenska Dagbladet og Göteborgs-Posten í dag. Flokkurinn hefur aldrei mælst með jafn lítið fylgi síðan Sifo hóf að gera þessar kannanir fyrir 49 árum, árið 1967.
Á sama tíma og fylgið hrynur af jafnaðarmönnum þá eykst fylgi hægri flokksins, Moderate, sem mælist með 25,6% atkvæða.
Samkvæmt skoðanakönnuninni njóta vinstriflokkarnir sem mynda ríkisstjórn landsins 37,2% fylgis á meðan hægri- og miðjuflokkarnir eru með 42,8%. En þeir flokkar sátu áður í ríkisstjórn.
Allt bendir hins vegar til þess að heldur sé að draga úr vinsældum Svíþjóðardemókrata á ný þrátt fyrir að flokkurinn njóti miklu meira fylgis nú en í síðustu kosningum. Samkvæmt könnun Sifo mælist flokkurinn, sem beitir sér gegn innflytjendum, með stuðning 18,2% kjósenda.