Brotið gegn 20 leikmönnum í sjö liðum

Fjölmargir knattspyrnumenn hafa greint frá kynferðislegu ofbeldi af hálfu þjálfara …
Fjölmargir knattspyrnumenn hafa greint frá kynferðislegu ofbeldi af hálfu þjálfara í ensku deildinni.

Knattspyrnusamband Englands (FA) er að rannsaka ásakanir um kynferðislegt ofbeldi í yngri flokkum enska boltans í kjölfar þess að nokkrir fyrrverandi leikmenn stigu fram og greindu frá því að þeir hafi verið beittir kynferðislegu ofbeldi af hálfu þjálfara síns í yngri flokkunum.

FA hefur fengið Kate Gallafent til þess að koma að rannsókninni en hún er sérfræðingur í barnavernd. Kanna á hvað var vitað innan FA á þeim tíma sem níðingsverkin voru framin, málefni sem fjölmiðlar hafa fjallað um undanfarna daga en ýmislegt bendir til þess að knattspyrnufélögin hafi vitað af ofbeldinu án þess að taka á því. Eins að rannsaka til hvaða aðgerða hefði átt að grípa. 

Gallafent mun síðan semja tilmæli til þess að tryggja það að þessir hlutir endurtaki sig aldrei.

Andy Woodward, sem lék með Crewe Alexandra-knattspyrnuliðinu, kom nýverið fram og sagði að þjálfari hans í yngri flokkunum, Barry Bennell, hafi beitt hann kynferðislegu ofbeldi á níunda áratugnum. 

Gordon Taylor, forstjóri Knattspyrnusambands Englands, segir að yfir 20 knattspyrnumenn hafi komið fram og greint frá svipuðu níði hjá sjö knattspyrnufélögum í landinu.

Þetta kom fram í viðtali við Taylor á BBC. Spurður um hvaða knattspyrnufélög sé um að ræða nefndi hann Crewe, Man City, Stoke, Blackpool, Newcastle, Leeds og fleiri. „Ég á von á því að þau séu fleiri. Ég held að það sé búið að nefna sex eða sjö félög.“

Fram hefur komið að Bennell braut á leikmönnum eins og Woodward, Steve Walters, David White og Ian Ackley.

Anthony Hughes, sem lék með enska unglingalandsliðinu, greindi frá því í dag að Bennell hafi brotið gegn honum kynferðislega.

Fjögur lögregluumdæmi rannsaka ásakanirnar, Lundúnalögreglan, Hampshire, Cheshire og Northumbria.

Taylor segist hafa áhyggjur af frétt fjölmiðils um að ákveðið knattspyrnufélag í Premier League hafi greitt leikmanni fyrir að þegja um sögu sína síðustu tvö árin.

Hann segir að ef knattspyrnufélög hafi greitt ungum leikmönnum fyrir að þegja um slíkt níð og ekkert gert í málinu þá er það skelfileg vanræksla af þeirra hálfu.

Knattspyrnufélagið Crewe hefur tilkynnt formlega um að skipuð hafi verið nefnd lögfræðinga sem eiga að rannsaka sjálfstætt hvernig félagið tók á slíkum ásökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert