Þriðja fórnarlamb árásarmannsins í London sem nafngreint er var Bandaríkjamaðurinn Kurt Cochran. Hann var að halda upp á 25 ára brúðkaupsafmæli sitt í borginni ásamt eiginkonu sinni, Melissu.
Cochran var frá Utah í Bandaríkjunum. Hann var á sextugsaldri.
Hjónin höfðu verið á ferðalagi um Evrópu og ætluðu að snúa aftur til Bandaríkjanna í dag.
Tveir aðrir létust í árás mannsins.
Lögreglumaðurinn sem var stunginn til bana hét Keith Palmer og var 48 ára. Hann átti eiginkonu og börn. Hann vann við öryggisgæslu við þinghúsið. Hann hafði verið lögreglumaður í fimmtán ár.
Áður fyrr gegndi hann herþjónustu og um tíma við hlið James Cleverly sem er nú þingmaður á breska þinginu. Cleverly skrifaði á Twitter um vin sinn: „Elskulegur maður, vinur. Ég er harmi lostinn.“
Kona lést líkt og Cochran á brúnni. Hún hét Aysha Frade og var 43 ára. Hún var breskur ríkisborgari en fædd á Spáni. Hún kenndi spænsku í skóla í London.
Fljótlega eftir að árásin var gerð sagði læknirinn Coleen Anderson, sem stödd var á brúnni, að hún hefði úrskurðað konu látna á vettvangi.
„Hún lá undir hjólum strætisvagns,“ sagði Anderson. Ekki er ljóst hvernig dauða konunnar bar nákvæmlega að en mikið öngþveiti skapaðist á brúnni er árásarmaðurinn ók bíl sínum þar um á mikilli ferð.
Frétt Sky um þriðja fórnarlambið.