Notaði WhatsApp tveimur mínútum fyrir árásina

Fórnarlambanna hefur verið minnst fyrir utan breska þinghúsið í Lundúnum.
Fórnarlambanna hefur verið minnst fyrir utan breska þinghúsið í Lundúnum. AFP

Hryðjuverkamaðurinn Khalid Masood var hress og sagði brandara við hótelstarfsfólk skömmu áður en hann lét til skara skríða í Lundúnum á miðvikudaginn. Hann notaði samskiptaforritið WhatsApp aðeins nokkrum mínútum áður en hann varð fjórum að bana þegar hann ók inn í hóp fólks og stakk því næst lögreglumann.

Fréttastofan Sky ræðir í dag við starfsmann Preston Park hótelsins í Brighton þar sem Masood gisti nóttina fyrir ódæðið. „Hann var að hlæja og segja brandara,“ segir Sabeur Toumi í samtali við Sky og bætti við að Masood hafi spjallað við starfsfólk hótelsins.

Lögregla hefur birt þessa mynd af Masood og biðlar til …
Lögregla hefur birt þessa mynd af Masood og biðlar til þeirra sem þekktu manninn að hafa samband. AFP

Michael Petersen sem var gestur á hótelinu sömu nótt og Masood tekur í sama streng. Hann sá árásarmanninn í móttöku hótelsins á miðvikudagsmorgun. Hann segir Masood hafa verið vel að máli farinn, kurteisan og frambærilegan. „Síðan var gaurinn á leiðinni að fremja fjöldamorð,“ segir Petersen.

Þá er greint frá því að Masood hafi notað smáforritið WhatsApp aðeins tveimur mínútum áður en hann hóf árás sína. Ekki liggur fyrir hvort að hann hafi verið í samskiptum við einhvern mínúturnar fyrir árásina.

Samkvæmt frétt Sky átti Masood konu og þrjú börn og hefur verið lýst sem „mjög trúuðum“.

Lögregla hefur nú birt mynd af Masood og beðið þá sem þekktu til hans að hafa samband. Þá hafa tveir verið handteknir í tengslum við málið.

50 særðust í árásinni og þar af eru tveir enn í lífshættu.

Masood gisti á þessu hóteli í Brighton nóttina fyrir árásina.
Masood gisti á þessu hóteli í Brighton nóttina fyrir árásina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka