Khalid Masood, sem varð fjórum að bana þegar hann ók inn í hóp fólks í nágrenni Westminster og stakk því næst lögreglumann til bana, hét Adrian Russell Ajao áður en hann snérist til íslamstrúar.
Breska lögreglan greindi frá þessu nú í morgun og sagði Masood hafa notað fjölda dulnefna, m.a. nafnið Adrian Elms, en hann var skráður til heimilis í London, Brighton, Luton, Eastbourne og Birmingham.
Mark Rowley yfirmaður hjá Skotland Yard sagði lögreglu þá hafa handtekið tvo til viðbótar í tengslum við árásina, en áður hafði lögregla handtekið fimm karla og þrjár konur vegna árásarinnar, einni kvennana hefur hins vegar nú verið sleppt gegn tryggingu.
Fjórða fórnarlamb Masood dó í gærkvöldi, karlmaður á áttræðisaldri, en að sögn Rowleys slösuðust 50 manns í árásinni og eru tveir enn alvarlega slasaðir og er ástand annars þeirra lífshættulegt.
Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams lýstu yfir ábyrgð á árásinni í gær og sögðu Masood hafa svarað kalli samtakanna um árásir á íbúa Vesturlanda.
Breska lögreglan greindi frá nafni Masood í gær og sagði hann á sakaskrá vegna margvíslegra brota, enginn brotanna tengdust hryðjuverkastarfsemi. Fréttavefur Guardian segir frá því í dag að sakaferill Masood spanni ein tuttugu ár, m.a. vegna líkamsárásar og vopnaeignar, en fyrsta kæran á hendur honum er frá árinu 1983.
Masood fæddist í Kent á jóladag 1964 og var giftur þriggja barna faðir. Guardian hefur eftir nágranna Masood, Iwona Romek, að hann hafi verið mikill áhugamaður um garðyrkju og að hún hafi skynjað hann sem góðan mann, en fjölskyldan flutti síðan skyndilega á brott í desember í fyrra. „Ég var vön að sjá hann úti að vinna í garðinum. Hann var aldrei með neitt vesen,“ sagði Romek.
Guardian segir Masood hafa fullyrt á ferilskrá sinni að hann hefði kennt ensku í Sadí-Arabíu á árabilinu 2005-2009 og að hann hafi orðið ensku kennari við TEFL skólann í Luton er hann sneri heim aftur. Masood er svo sagður hafa komið á fót eigin enskukennslu fyrirtæki undir nafninu IQRA í Birmingham árið 2012. Sky-fréttastofan segir vangaveltur vera uppi um hvort Masood hafi orðið öfgatrúar er hann dvaldi þar út.
Sky fréttastofan hefur eftir manni sem þekkti til Masood að hann hafi verið „stór maður“. „Hann leit út eins og vaxtaræktarkappi, ekki maður sem mann langaði að abbast upp á,“ sagði heimildamaðurinn. Masood hafi verið mjög trúaður og vel máli farinn maður, sem snérist til íslams trúar.
„Það var ekki hægt að heimsækja hann í Birmingham á föstudögum af því að þá var hann við bænir.“
Götublaðið Sun segir Masood hafa dvalið á hóteli í útjaðri Brighton kvöldið fyrir árásina og hafi sagt starfsfólkinu þar að hann væri á leið til London. Borgin „er ekki eins og hún var áður,“ á Masood að hafa sagt við starfsfólkið.
Uppfært kl. 14.43:
Tölur um fjölda látinna í erlendum fréttamiðlum eftir árásina voru óljósar til að byrja með. Ljóst er að fimm eru látnir eftir árásina. Bresk kona sem var sækja börnin sín í skólann, bandarískur maður sem var í London ásamt eiginkonu sinni að halda upp á brúðkaupsafmæli þeirra, 75 ára maður frá London, árásarmaðurinn og lögreglumaðurinn sem hann stakk.