Fjölskylda lögreglumannsins Keith Palmer, sem var myrtur í Westminster-hryðjuverkaárásinni í Lundúnum á miðvikudaginn, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem öllum sem hjálpuðu á vettvangi er þakkað. „Það er ekkert meira sem þið gátuð gert,“ segir í yfirlýsingunni.
Fjölmargir vegfarendur, til að mynda breskur þingmaður og boxþjálfari, reyndu að bjarga lífi hins 48 ára gamla Palmer eftir að hann var stunginn af Khalid Masood fyrir framan breska þinghúsið.
„Við höfum verið gagntekin af ástinni og stuðningnum sem fjölskyldan hefur hlotið og sérstaklega ástinni og virðingunni sem fólk bar fyrir Keith,“ sagði í tilkynningunni.
„Við viljum þakka öllum sem hafa haft samband síðustu daga fyrir góðmennsku þeirra og örlæti.“
Þá segir fjölskyldan jafnframt að lögreglan hafi sýnt henni gríðarlegan stuðning á þessum erfiðu tímum. „Það fékk okkur til þess að skilja hvaða sterku, umhyggjusömu og stuðningsríku fjölskyldu Keith átti innan lögreglunnar. Við getum ekki þakkað þeim nóg.“
Fjölskyldan sendi líka þakkir til þeirra sem voru með lögreglumanninum hans síðustu stundir og þeirra sem unnu með honum þann daginn. „Það var ekkert meira sem þið gátu gert. Þið gerðuð ykkar besta og við erum bara þakklát að hann var ekki einn. Við söknum hans svo mikið en við erum einnig ótrúlega stolt af Keith.“
Þingmaðurinn Tobias Ellwood var meðal þeirra sem reyndu að hjálpa Palmer eftir að hann var skotinn. Ellwood, sem er einnig undirráðherra í utanríkisráðuneyti Englands, var myndaður á vettvangi með blóð á andliti sínu og fötum eftir að hann reyndi að endurlífga Palmer.
„Það kremur hjartað í mér að ég gat ekki gert meira fyrir Keith Palmer sem fórnaði lífi sínu við það að verja okkur gegn hryðjuverkum og við að vernda lýðræðið,“ sagði í yfirlýsingu Ellwood. „Ég lék lítið hlutverk þennan dag, að gera það sem mér var kennt að gera.“