Breska lögreglan sagði í dag að henni hefði ekki tekist að finna nokkur tengsl á milli Khalids Masood, sem framkvæmdi hryðjuverkaárás við breska þinghúsið í London, höfuðborg Bretlands, í síðustu viku, og hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams.
Þetta kemur fram í frétt AFP en Ríki íslams hefur sagt að Masood hafi verið á vegum þeirra og lýst yfir ábyrgð á hryðjuverkaárásinni.
Haft er eftir Neil Basu, talsmanni lögreglunnar í London, að ekki hafi fundist nokkrar sannanir um slík tengsl. Hvorki við Ríki íslams né hryðjuverkasamtökin al-Kaída. Hins vegar hefði Masood haft áhuga á heilögu stríði.