Ekkja hryðjuverkamannsins Khalid Masood, sem myrti fjórar manneskjur við breska þinghúsið í Westminster í síðustu viku, segist vera miður sín vegna harmleiksins og fordæmir gjörðir eiginmanns síns.
Yfirlýsing konunnar, Rohey Hydara, kemur í kjölfar ummæla móður Masood, sem sagðist hafa grátið mörgum tárum fyrir fórnarlömb sonar síns.
Í yfirlýsingunni, sem birt er með hjálp lögregluyfirvalda, segir Hydara:
„Ég er miður mín og harma það sem Khalid hefur gert. Ég fordæmi gjörðir hans algjörlega. Ég votta samúð mína fjölskyldum þeirra fórnarlamba sem látist hafa og óska þess að allir hinir særðu fái skjótan bata.
Þá vil ég biðja um næði fyrir fjölskyldu okkar, einkum börnin, á þessum erfiða tíma.“
Lögreglan tilkynnti í gær að Masood hefði haft augljósan áhuga á jihad, þ.e. heilögu stríði íslamstrúar, og að aðferðir hans hafi verið í samræmi við orðræðu leiðtoga Ríkis íslams.
Engar sannanir væru þá fyrir því að Masood hefði rætt áætlanir um árásina við þá sem nærri honum stóðu.