Í tvö ár hefur hrikaleg borgarastyrjöld geisað í Jemen, einu fátækasta ríki heims. Milljónir hafa lagt á flótta og meira en 7.600 hafa fallið og 42 þúsund særst. Í þessum hópi er fjöldi barna.
Athygli heimsbyggðarinnar beinist sjaldan að Jemen. Skýringarnar eru sjálfsagt margar. Þetta litla ríki á Arabíuskaga hefur verið einangrað og íbúarnir oft búið við sára fátækt þó að þar sé olíu að finna. Menntunarstig er lágt og heilbrigðiskerfið veikburða. Stríðsátökin nú hafa aukið á alla þessa þætti og valdið hamförum hörmunga meðal þjóðarinnar. Um 70% hennar þurfa á mannúðaraðstoð að halda til að draga fram lífið.
En hvað gengur eiginlega á í Jemen?
Upphaf borgarastyrjaldarinnar í landinu má rekja til arabíska vorsins í kjölfar fjölmennra mótmæla íbúanna gegn sitjandi stjórnvöldum. Fólkið krafðist bættra kjara og mótmælti spillingu. Mótmælin þróuðust út í uppreisn og í byrjun árs 2011 var Ali Abdullah Saleh, sem verið hafði forseti frá 1990, hrakinn frá völdum. Boðað var til forsetakosninga og í febrúar árið 2012 tók núverandi forseti, Abed Rabbo Mansour Hadi, við völdum. Hann hafði áður verið varaforseti.
Hadi glímdi við mörg flókin verkefni og vandamál strax frá upphafi valdatíðar sinnar, m.a. árásir al-Qaeda, aðskilnaðarsinna í suðri og andstöðu hópa sem stutt höfðu fyrrverandi forseta, m.a. hópa innan stjórnarhersins. Þá reyndist honum erfitt að tækla spillinguna sem kynt hafði undir arabíska vorinu, atvinnuleysi og matvælaskorti sem töluvert bar á.
Hútar, vopnuð samtök stórs minnihlutahóps shía-múslima í norðurhéruðum landsins, höfðu staðið í átökum við stjórnarherinn í tíð Saleh forseta. Átökin héldu áfram, en þó í minna mæli, eftir að Hadi tók við völdum. Þeir nýttu sér hins vegar veika stöðu hins nýja forseta í norðurhluta landsins og rændu völdum á svæðinu.
Margir Jemenar studdu Hútana, m.a. hópar súnní-múslíma. Í september árið 2014 gerðu þeir áhlaup á höfuðborgina Sanaa þar sem þeir settu upp vegatálma og búðir sínar. Þeir hertu svo tökin á valdataumum sínum í borginni í janúar 2015, sátu um forsetahöllina og aðrar lykilbyggingar og settu Hadi forseta og ríkisstjórn hans í stofufangelsi.
Í febrúar tókst forsetanum að flýja til borgarinnar Aden, sunnar í landinu.
Hútar, með stuðningi öryggissveita sem enn voru hliðhollar Saleh fyrrverandi forseta, gerðu svo tilraun til að ræna völdum í öllu landinu. Í kjölfarið flúði Hadi forseti land.
Augu leiðtoga nágrannaríkjanna voru þá tekin að beinast að Jemen. Stjórnvöld í Sádi-Arabíu voru þess fullviss að Hútarnir nytu stuðnings Írana, þeirra erkifjenda, og hófu því, í félagi við átta önnur ríki, loftárásir í þeim tilgangi að styrkja völd Hadis forseta. Bandalagið nýtur svo margvíslegs stuðnings Bandaríkjamanna, Breta og Frakka í stríðsrekstri sínum.
Og síðan þá, eða fyrir tveimur árum, hefur blóðug borgarastyrjöld geisað. Enn er ekkert útlit fyrir að annar aðilinn sé að hafa betur. Á meðan engist heil þjóð um.
Nokkrar orrustur hafa unnist. Stjórnarherinn og uppreisnarhópar súnní-múslima, sem hliðhollir eru Hadi forseta, komu í veg fyrir að Hútar og þeirra menn næðu völdum í hafnarborginni Aden. Sú orrusta tók sinn toll. Hún stóð yfir í fjóra mánuði og hundruð féllu. Hernaðarbandalaginu tókst að hrekja sveitir Húta frá Suður-Jemen. Hadi og ríkisstjórn hans sneru til baka úr útlegð og komu sér fyrir í Aden.
Bandalaginu hefur hins vegar ekki orðið ágengt í því verkefni sínu að ná völdum af Hútunum í norðurhluta landsins. Höfuðborgin Sanaa og héruðin þar í kring eru því enn á valdi Hútanna.
Hútar eru ekki par hrifnir af afskiptum Sádi-Araba og hafa skotið flugskeytum og sprengjum yfir landamærin.
Rétt eins og í Sýrlandi hafa svo ýmsir öfgahópar, þeirra á meðal Ríki íslams, nýtt sér aðstæðurnar og náð að sölsa undir sig landsvæði sunnarlega í Jemen og hafa hert á árásum sínum, aðallega í Aden þar sem ríkisstjórnin hefur hreiðrað um sig.
Sem fyrr eru það óbreyttir borgarar, meðal annars börn, sem átökin bitna harðast á. Svo hart að hungursneyð vofir yfir og á tíu mínútna fresti að meðaltali deyr barn úr vannæringu og sjúkdómum sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir. Börnin hafa einnig verið drepin í átökum, að minnsta kosti um 1.600 þeirra. Í raun er það þannig að þriðjungur þeirra sem hafa fallið síðustu tvö ár eru börn, enda er tæplega helmingur þjóðarinnar yngri en átján ára.
Mannréttindasamtök eru þess fullviss að allar stríðandi fylkingar hafi með alvarlegum hætti brotið alþjóðalög í hinni löngu valdabaráttu sinni.
Sameinuðu þjóðirnar og UNICEF eru meðal þeirra sem hafa lýst yfir miklum áhyggjum af ástandinu sem fer sífellt versnandi.
Rafmagnsleysi hefur verið viðvarandi víðast hvar um landið síðustu misseri. Eldsneyti er af skornum skammti og aðeins á færi fárra. Ríkið getur ekki greitt opinberum starfsmönnum laun svo að þeir hafa yfirgefið stöður sínar, m.a. á sjúkrahúsum og í skólum. Slíkar stofnanir hafa einnig ítrekað orðið fyrir árásum og orðið óstarfhæfar af þeim sökum.
Allir innviðir Jemen riða því til falls og hungrið er farið að sverfa að. Sameinuðu þjóðirnar telja að 3,3 milljónir barna, óléttra kvenna og mæðra með börn á brjósti, þjáist af vannæringu og um 462 þúsund börn undir fimm ára aldri af bráðavannæringu. Það þýðir að þau eru tíu sinnum líklegri en heilbrigði börn til að deyja.
Tvær milljónir hafa flúið heimili sín og um 180 þúsund til annarra landa.
En er einhver leið að koma á friði?
UNICEF krefjast þess að fundnar verði leiðir til að stöðva stríðið og bjarga þannig heilli kynslóð barna frá sulti, áföllum og örbirgð.
Sameinuðu þjóðirnar hafa í þrígang skipulagt friðarviðræður milli stríðandi fylkinga. Veik von um árangur vaknaði í þeim síðustu sem fram fóru í Kúveit í apríl á síðasta ári. Þá var eins og Hútarnir og Sádi-Arabar væru viljugir til að semja.
En því miður runnu þessar viðræður út í sandinn þremur mánuðum síðar og ofbeldið blossaði upp að nýju og af enn meiri hörku en áður. Hrina árása varð til þess að óbreyttir borgarar féllu sem aldrei fyrr.
Ríkisstjórn Hadis forseta hefur sagt að sáttaferli geti aðeins hafist að því tilskildu að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna virki ályktun 2216, þar sem þess er krafist að uppreisnarmenn dragi sig til baka frá öllum svæðum þar sem þeir fara með völd og leggi niður vopn.
En hvers vegna eru þjóðir á borð við Sádi-Araba og Bandaríkjamenn að skipta sér af átökunum? Eitt hefur þegar komið fram hér að ofan, Sádar gruna Írana um að styðja við Húta. Það geta þeir ekki liðið. Í öðru lagi snýst málið um olíu. Þótt olíulindir Jemen séu ekki stórkostlegar eru þær til staðar og að auki er landið á mikilvægri flutningaleið, það er frá Sádi-Arabíu til Bab el-Mandeb-sundsins milli Afríku og Arabíuskagans og er ein fjölfarnasta siglingaleið í heimi.
Í þriðja lagi óttast Vesturlönd uppgang öfgahópanna sem þrífast best í ótryggu ástandi eins og nú ríkir í Jemen. Augljóslega hafa Bandaríkin, Frakkar og Bretar áhyggjur af vígamönnum Ríkis íslams en ekki síður herskáum hópi íslamista sem tengjast al-Qaeda og hafa nýtt tækifærið og eflt stöðu sína í Jemen síðustu mánuði. Hópurinn, AQAP, er af vestrænum leyniþjónustum talinn hættulegasta kvísl al-Qaeda. Hópurinn er talinn búa yfir tæknilegri sérþekkingu og teygja anga sína um allan heim
Mikil einföldun væri að segja að borgarastríðið í Jemen væri á milli shía- og súnní-múslima sem þar búa. En með tilkomu þeirra sem styðja við Hútana annars vegar og forsetann hins vegar hafa slíkar fullyrðingar heyrst. Skýringin felst í því að Íranar eru upp til hópa shía-múslimar og Sádi-Arabar súnní-múslimar.
Íranar hafa þó alla tíð neitað að styðja Hútana með vopnum og fjármagni ólíkt Sádi-Aröbum og fleiri sem hafa viðurkennt aðild sína að stríðinu sem alls ekki sér fyrir endann á.
Greinin byggir á fréttum AFP, BBC, Guardian, Wall Street Journal og fleiri miðla.