Sjötta manneskjan látin í London

Sjúkrabílar við Westminster-brúna í London.
Sjúkrabílar við Westminster-brúna í London. AFP

Rúmensk kona sem féll í ána Thames í hryðjuverkaárásinni við breska þinghúsið lést á sjúkrahúsi í gær. Þar með hafa sex látist eftir árásina. 

Andreea Cristea, 31 árs, var í heimsókn í London með kærasta sínum Andrei Burnaz, sem ætlaði sér að biðja hennar sama dag og árásin átti sér stað, að sögn Dan Michalache, sendiherra Rúmeníu í Bretlandi.

Cristea féll af Westminster-brúnni þegar árásarmaðurinn ók á hóp gangandi vegfarenda 22. mars.

Að sögn lögreglunnar hafði hún verið í öndunarvél en ákveðið var að slökkva á henni í gær.

„Engin orð geta lýst þeim nístandi sársauka og tómleika sem situr eftir í hjörtum okkar,“ sagði í yfirlýsingu fjölskyldu hennar og kærasta.

Khalid Masood, 52 ára maður sem hafði snúist til íslamstrúar, ók bifreið á fullum hraða á gangandi vegfarendur á brúnni áður en hann réðst með hnífi á lögreglumann fyrir utan þinghúsið.

Þeir sem létust á brúnni voru Leslie Rhodes, 75 ára, Aysha Frade, 44 ára, Kurt Cochran, 54 ára, og núna Cristea.

Þar að auki lést lögreglumaðurinn Keith Palmer, 48 ára, og árásarmaðurinn sjálfur, sem var skotinn til bana af lögreglunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert