Handtekinn með hnífa við Westminster

Maðurinn í haldi lögreglu.
Maðurinn í haldi lögreglu. AFP

Lögreglan í Lundúnum handtók í dag mann skammt frá þinghúsunum í Westminster en að sögn sjónarvotta sáust hnífar á vettvangi. Stutt er liðið frá því að maður ók á vegfarendur nærri þinghúsunum og varð fjórum að bana, auk þess að særa lögreglumann til ólífis í stunguárás.

Ljósmyndari AFP varð vitni að því þegar lögregla umkringdi manninn og hélt honum niðri. David Wisniowski, sem var við vinnu á byggingasvæði skammt frá, sagðist hafa séð þrjá hnífa á jörðinni; „einn stóran og tvo litla.“

Gabrielle Hennessy, 20 ára ferðamaður frá Bandaríkjunum, lýsti því hvernig lögregla hefði hraðað sér að manninum.

„Við vorum að ganga eftir Parliament Square og sáum lögreglu þyrpast að honum. Og svo lá hann í götunni umkringdur lögreglu. Þeir reistu hann á fætur og þá sá ég hnífinn á jörðinni,“ sagði hún við AFP.

Lögreglan hefur girt svæðið af.

Hnífar sáust á jörðinni.
Hnífar sáust á jörðinni. AFP
Lögregla hefur girt svæðið af.
Lögregla hefur girt svæðið af. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert