Árás á heimili sænskrar þingkonu

Hanna Wigh.
Hanna Wigh. Vefur sænska þingsins

Sænska lögreglan hefur handtekið mann sem er grunaður um að hafa valdið miklum skaða á heimili þingkonu Svíþjóðardemókrata í lok september. Skömmu áður hafði hún sagt sig úr flokknum í tengslum við kynferðislega áreitni af hálfu flokksfélaga.

Handslökkvitæki var kastað inn um glugga á heimili Wigh í Falköping 30. september og eins voru unnar miklar skemmdir á bifreið hennar.

Samkvæmt frétt Expressen tók sænska öryggislögreglan (Säpo) við rannsókn málsins af lögreglunni í Falköping þar sem árásin beindist að þingmanni. Maður er nú í haldi og er hann grunaður um að hafa staðið á bak við árásina.

Wigh hafði skömmu áður tilkynnt afsögn sína úr stjórnmálaflokknum. Ástæðan er að flokks­for­yst­an hafði þaggað niður í henni þegar hún vakti máls á kyn­ferðis­legri áreitni.

Wigh, sem hef­ur setið á þingi fyr­ir SD frá ár­inu 2014, steig fram ásamt nokkr­um öðrum stjórn­mála­kon­um, í þætt­in­um Kalla Fa­kta í sænska rík­is­sjón­varp­inu. Þar var fjallað um kyn­lífs­hneyksli, ásak­an­ir um nauðgan­ir, áreitni og til­raun­ir Svíþjóðardemó­krata að hylma yfir kyn­bundið of­beldi inn­an flokks­ins.

Eitt sem kom fram hef­ur vakið mikla at­hygli en þar lýsti Wigh því hvernig ann­ar þingmaður SV beitti hana kyn­ferðis­legu of­beldi.

„Hann tók með annarri hendinni um háls­inn á mér og þrýsti mér upp að veggn­um. Síðan setti hann lausu hönd­ina inn und­ir bux­urn­ar mín­ar og þrýsti fingr­in­um upp,“ sagði Wigh.

Frétt mbl.is: Sjúkar, ágengar eða drukknar

Ewamari Häggkvist saksóknari segir í samtali við Expressen að rökstuddur grunur sé um að maðurinn eigi aðild að árásinni.

Að sögn Wigh veit hún hver maðurinn er og það eina sem hún geti sagt sé að henni sé verulega brugðið.

Þingmaðurinn sem Wigh sakaði um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi neitar að um ofbeldi hafi verið að ræða. Þau hafi átt í ástarsambandi og hann talið að hún væri samþykk. Formaður Svíþjóðardemókrata, Jimmie Åkesson, neitar því að hafa vitað af árásinni og segir Wigh ljúga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka