Minnast fallinnar hetju

Mörg hundruð komu saman í messu í Frakklandi í dag til minningar um fórnarlömb hryðjuverkaárásar í Suður-Frakklandi á föstudag. Fjórir létu lífið er 26 ára Frakki af marokkóskum uppruna réðst inn í matvöruverslun og hrópaði slagorð Ríkis íslam áður en hann hóf að skjóta á starfsfólk og viðskiptavini.

Meðal þeirra sem létust var Arnaud Beltrame, 45 ára lögregluþjónn, sem hefur verið hylltur sem hetja, en hann var skotinn og stunginn til bana eftir að hafa boðið sjálfan sig fram í skiptum fyrir konu sem árásarmaðurinn notaði sem mannlegan skjöld.

Meðal þeirra sem tóku þátt í messunni voru trúarleiðtogar múslima í Frakklandi. „Samfélag múslima hefur verið sært. Íslam sjálft hefur verið sært, af fólki sem notar tákn sem eru okkur kær,“ sagði Mohamed Belmihoub, imam múslima í Carcassonne, þar sem minningarathöfnin fór fram.

Sérstök minningarathöfn um lögregluþjóninn Beltrame verður haldin á næstunni, en Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir hann hafa „dáið sem hetju“. „Hann dó í þjónustu þjóðarinnar, sem hann hafði þegar gefið svo mikið,“ sagði Macron.

Krufning hefur leitt í ljós að Beltrame varð fyrir gúmmíkúlum lögreglunnar, þar sem árásarmaðurinn notaði hann sem skjöld. Þá var hann einnig með alvarlegt stungusár á hálsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert