Radouane Lakdim, sem myrti fjóra í suðurhluta Frakklands í síðustu viku, hafði viku fyrir árásina verið boðaður til yfirheyrslu hjá hryðjuverkadeild frönsku lögreglunnar.
AFP-fréttastofan hefur þetta eftir heimildamanni innan lögreglunnar. Lakdim, sem fæddist í Marokkó en er franskur ríkisborgari, hafði verið að lista lögreglunnar yfir öfgatrúarmenn frá því árið 2014 og var fylgst með honum sem slíkum. Hafa þessar upplýsingar leitt til gagnrýni nokkurra franskra stjórnmálamanna í garð öryggislögreglunar fyrir að hafa ekki komið í veg fyrir árásina.
Lakdim myrti fjóra og særði fjóra til viðbótar í þremur skotárásum síðasta föstudag í bæjunum Carcassone og Trebes, þar sem hann tók einnig fólk í gíslingu í matvöruverslun áður en hann féll fyrir hendi hryðjuverkalögreglunnar.
Heimildamaður AFP segir Lakdim hafa verið sent bréf nú í mars, þar sem hann hafi verið boðaður á fund með öryggislögreglu.
Franska lögreglan handtók í kjölfarar árásarinnar 18 ára kærustu Lakdim sem einnig er öfgatrúar og 17 ára gamlan vin þeirra.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti mun á morgun leiða minningarathöfn um lögreglumanninn Arnaud Beltrame, sem lést eftir að hafa boðið sjálfan sig í skiptum fyrir einn gíslanna í matvöruversluninni. Hann særðist alvarlega er Lakdim skar hann á háls og lést skömmu síðar á sjúkrahúsi.