Emmanuel Macron, forseti Frakklands, vonast til að Bandaríki setji ekki innflutningstolla á stál og ál frá Evrópu.
Tímabundin undanþága frá tollunum, meðal annars í Kanada, Mexíkó og Evrópu, rennur út 1. maí en tollarnir voru upphaflega settir á kínverskar vörur.
„Ég vona að hann veiti Evrópusambandinu undanþágu,“ sagði Macron um Donald Trump Bandaríkjaforseta, á sjónvarpsstöðinni Fox News.
„Maður fer ekki í viðskiptastríð við samherja sína.“
Trump tilkynnti í síðasta mánuði að Bandaríkin ætluðu að leggja 25% tolla á stál og 10% á ál. Forsetinn sagði að innfluttar vörur væru að skaða öryggi Bandaríkjanna með því að grafa undan innlendri framleiðslu sem nota þurfi svo að herinn geti verið viðbúinn.
.@EmmanuelMacron discusses the role of the U.S. and allies in Syria: pic.twitter.com/nMnloASJUL
— FoxNewsSunday (@FoxNewsSunday) April 22, 2018
Embættismenn frá Bandaríkjunum og Evrópu tilkynntu í síðasta mánuði að viðræður hefðu verið á milli stjórnvalda í Washington og Brussel til að leysa deiluna en ekki er ljóst hvort árangur hafi náðst í þeim.
Macron bætti við: „Ef þú ferð í stríð gegn einhverjum, hvort sem það er viðskiptastríð gegn Kína og Evrópu eða stríð í Sýrlandi eða gegn Íran….sjáðu til, það gengur bara ekki.“
Frakklandsforseti hvatti Trump einnig til að halda sig við kjarnorkusamninginn við Íran og sagði að enginn betri valkostur væri í boði en Trump hefur hótað því að virða ekki samninginn.
Þriggja daga heimsókn Macrons til Bandaríkjanna hefst á morgun.