Katalónska þingið samþykkti í dag að kosið verður um forseta héraðsstjórnarinnar á morgun. Þingmenn sammæltust um að sjálfstæðissinninn Quim Torra verður einn í kjöri.
Joaquim Torra i Pla er 55 ára lögfræðingur og hefur setið á katalónska þinginu frá því í janúar.
Af 135 þingmönnum styðja 70 sjálfstæði Katalóníu en 65 vilja að héraðið verði áfram hluti af Spáni. Fimm þingmenn sjálfstæðissinnaflokksins CUP, Sameiningarflokks alþýðu, sögðust ætla að greiða fyrrverandi forseta Katalóníuhéraðs, Carles Puigdemont, atkvæði, þrátt fyrir að hann sé ekki í kjöri.
Puigdemont hefur verið í sjálfskipaðri útlegð í Belgíu frá því í október í fyrra, skömmu eftir atkvæðagreiðslu Katalóníubúa um sjálfstæði fylkisins, sem spænsk yfirvöld segja ólöglega. Hann var handtekinn í Þýskalandi í mars og hefur dómstóll þar í landi hafnað því að framselja Puigdemont til Spánar.
Puigdemont hvatti spænsk stjórnvöld í síðasta mánuði til að hefja þegar í stað viðræður um pólitíska lausn til að binda enda á deiluna sem hefur staðið yfir vegna misheppnaðra áforma um sjálfstæða Katalóníu.
Samkomulag náðist í dag við þá þingmenn sem hugðust kjósa Puigdemont að sitja hjá í forsetakjörinu á morgun.