Donald Trump Bandaríkjaforseti hótaði í dag að setja 20% innflutningstolla á bíla sem framleiddir eru í löndum Evrópusambandsins og fluttir til Bandaríkjanna, ef Evrópusambandið myndi ekki hætta að leggja tolla á bandarískar vörur og setja upp viðskiptahindranir gegn bandarískum fyrirtækjum.
Þessu lýsti forsetinn yfir á Twitter-síðu sinni, en um mánuður er síðan að bandarísk yfirvöld hófu að rannsaka það hvort innflutningur á bílum væri ógn við þjóðaröryggi landsins.
Based on the Tariffs and Trade Barriers long placed on the U.S. and it great companies and workers by the European Union, if these Tariffs and Barriers are not soon broken down and removed, we will be placing a 20% Tariff on all of their cars coming into the U.S. Build them here!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) June 22, 2018
Taka má hótun Trumps sem svari við aðgerðum Evrópusambandsins, sem í dag hóf að leggja tolla á ýmsar bandarískar vörur, en þær aðgerðir ESB voru svar við þeim verndartollum sem bandarísk yfirvöld hafa komið á síðustu vikurnar.
Bandaríkin leggja í dag á 2,5% toll á bíla frá Evrópusambandinu, en 25% toll á innflutta pallbíla. Evrópusambandið innheimtir 10% tolla á bíla sem fluttir eru inn frá Bandaríkjunum.