„Við fögnum þessari ígrunduðu og skýru niðurstöðu í óvenjulegu máli,“ segir ritstjórn vísindatímaritsins Lancet um úrskurð Ole Petter Ottesen, rektors Karólínsku stofnunarinnar, vegna plastbarkamálsins. Í nýjustu útgáfu vísindatímaritsins, sem kom út 7. júlí, eru tvær vísindagreinar eftir Paolo Macchiarini vegna plastbarkaígræðslu, birtar 2011 og 2012, formlega dregnar til baka að beiðni Ottesen.
Ritstjórnin segir þessa niðurstöðu koma í kjölfar margra ára óvissu og óstöðugleika við Karólínsku stofnunina þar sem misvísandi skilaboð voru gefin út. Þetta leiddi til þess að ritstjórnin sendi frá sér tilkynningu í apríl 2016 þar sem áhyggjum tímaritsins var lýst, að sögn ritstjórnarinnar.
Læknar og vísindamenn sem sagðir eru hafa gerst sekir um vísindalegt misferli eru nafngreindir í Lancet, en það eru Paolo Macchiarini, Philipp Jungebluth, Karl-Henrik Grinnemo, Jan Erik Juto, Alexander Seifalian, Tómas Guðbjartsson og Katarina Le Blanc.
Þá segir ritstjórn Lancet að úrskurðurinn gagnvart þessum aðilum hafi verið á grundvelli þess að þeir hafi haft ásetning um að blekkja eða vanrækt skyldur sínar við útgáfu vísindagreinar og/eða ekki aflað tilskyldra leyfa fyrir rannsóknum.
Lancet tekur fram að allir aðrir sem komu að umræddum vísindagreinum hafi sýnt aðfinnsluverð vinnubrögð. Einnig er tekið sérstaklega fram að þetta nái ekki til Clair Crowley, en hún var nemi á þessum tíma og kom hún að málinu á seinni stigum.