Dómurinn staðfesti að betur hefði mátt fara

Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, kveður málið bara í ferli hjá …
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, kveður málið bara í ferli hjá ríkislögmanni eins og er. mbl.is/Arnþór

„Þetta er bara í ferli hjá ríkislögmanni eins og er,“ segir Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítalans, spurður út í plastbarkamálið svokallaða, ígræðslu plastbarka í Andemariam Beyene fyrir rúmum áratug, en eins og greint var frá í gær er Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir nú kominn í leyfi frá störfum.

„Það kemur fram í rannsóknarskýrslunni sem gerð var um málið að ýmislegt hefði mátt betur fara hér og sömuleiðis kemur það fram í dóminum yfir Paolo Macchiarini,“ segir Runólfur enn fremur og vísar í nýlegan sænskan dóm þar sem Macchiarini hlaut tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir sinn þátt í málinu.

Leitist við að styðja ekkjuna

Stærstur hluti málsins eru aðgerðir sem framkvæmdar hafa verið í Stokkhólmi í Svíþjóð en í téðri rannsóknarskýrslu komst hópur sérfræðinga að þeirri niðurstöðu að víða hefði verið pottur brotinn í þeim hluta sem Landspítalinn annaðist.

„Í niðurlagi skýrslunnar koma fram þau tilmæli að spítalinn leitist við að styðja ekkju Beyene við sækja skaðabætur og byggir það á því að aðfinnslur voru við ýmislegt við framkvæmd spítalans,“ segir Runólfur en vill ekki tjá sig sérstaklega um leyfi Tómasar fyrir utan að vitanlega sé skarð fyrir skildi vegna fjarveru hans.

Runólfur segir hjartaskurðlækningar á Íslandi standa höllum fæti mönnunarlega og segir að lokum aðspurður að í raun hafi ekkert breyst í málinu nú annað en það að endanlegur dómur yfir Macchiarini hafi staðfest að betur hefði mátt fara hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert