„Ég fylgist agndofa með því hversu hratt hún syndir og hversu langt hún kemst,“ segir Taylor Shedd hjá samtökunum Soundwatch er fylgjast með ferðum háhyrningskýrinnar sem fer nú með dauðan kálf sinn um hafið undan vesturströnd Kanada. Kýrin, sem kölluð er Tahlequah, hefur nú ýtt kálfinum á undan sér hundruð kílómetra í um átta sólarhringa. Kálfurinn fæddist 24. júlí en lifði aðeins í um hálftíma.
Vel er fylgst með móðurinni en í gær misstu vísindamennirnir hana úr augsýn og gerðu ítarlega leit á hafsvæðinu undan ströndum British Columbia þar sem hún fer um ásamt fjölskyldu sinni. Það var ekki fyrr en undir kvöld sem þeir fundu hana loks, segir í frétt Seattle Times. Þeir sáu svo fljótlega að enn er hún að ýta hræi kálfsins með trjónunni á undan sér. „Ég er feginn að við fundum hana og að hún virðist heilbrigð og sterk á sundinu og að hún sé enn með fjölskyldunni sinni,“ segir Shedd í samtali við Seattle Times en dagblaðið hefur fylgst gaumgæfilega með ferðum háhyrningsins síðustu daga. Hann segir hins vegar erfitt að finna þá miklu sorg sem kýrin glími við. „Að bera [hræið] er erfitt fyrir hana líkamlega og andlega. Þetta er átakanlegt.“
Tahlequah, eða J35 eins og hún heitir í skrám vísindamannanna, tilheyrir stofni suðlægra staðbundinna háhyrninga sem halda til á þessum slóðum í Norðvestur-Kyrrahafi. Þessi stofn telur aðeins um 75 dýr og hefur ekki komið afkvæmi á legg í þrjú ár. Hann er því í útrýmingarhættu. Annað dýr í fjölskyldunni er við dauðans dyr og telja vísindamenn það vera að svelta í hel.
Í venjulegu árferði ættu fjórir til fimm kálfar að fæðast í fjölskyldunni árlega, segir í umfjöllun New York Times. Sem dæmi fæddust níu kálfar árið 2015 en að minnsta kosti þrír þeirra eru nú dauðir.
Háhyrningarnir eru í rauninni að svelta í hel líklega vegna þess að þeirra aðalfæða, chinook-laxinn, er nú af skornum skammti. Háhyrningar éta venjulega um 30 slíka fiska á dag en þar sem löxunum hefur fækkað á búsvæðum háhyrninganna hafa þeir orðið að eyða meiri orku en áður í að veiða smærri bráð.
Önnur ógn steðjar einnig að háhyrningastofninum; tvöföldun Trans Mountain-olíuleiðslunnar. Við það mun olíuflutningaskipum, sem fara um búsvæði háhyrninganna, fjölga sjöfalt. Til stendur að hefja framkvæmdir nú í ágúst en fjölmörg náttúruverndarsamtök hafa varað við hættunni sem auknir olíuflutningar gætu skapað í þessu viðkvæma vistkerfi hafsins.
Almennt eru ofangreind atriði taldar helstu skýringarnar á fækkun í stofni háhyrninga á þessum slóðum en fleira gæti þó komið til. Vísindamönnum tekst mjög sjaldan að kryfja hræ háhyrninga því þau sökkva oftast til botns eða skolar á land á afskekktum svæðum. Ekki er útilokað að sjúkdómar hrjái fjölskylduna, mögulega veirusýkingar sem borist hafa í þá frá mönnum.
Þá er einnig mögulegt að breytingar á hafstraumum og þar með hitastigi sjávar hafi áhrif. Massi sjávar, sem fengið hefur uppnefnið „hitaklessan“ (The Blob), hefur t.d. hækkað hitastig sjávar á afmörkuðum svæðum í Kyrrahafi um allt að sex gráður.
Suðlægi, staðbundni háhyrningurinn heldur yfirleitt til í Salish-hafi í þröngu sundi milli British Columbia og Washington-ríkis. Stofninn eltir chinook-laxinn en þar sem honum hefur fækkað hefur ferðamynstur háhyrninganna breyst.
Ýmislegt er nú reynt til að bregðast við þessari gífurlegu fækkun í stofninum. Í mars gaf Jay Inslee, ríkisstjóri í Washington, út sérstaka tilskipun til stofnanna um að finna skyldi leiðir til að styðja við háhyrningastofninn. Meðal tillagna er að takmarka umferð báta, hreinsun eiturefna úr hafinu og aðgerðir sem stuðla að því að efla chinook-laxastofninn. Þá hefur auknu fjármagni verið varið til rannsókna. „Háhyrningarnir munu ekki lifa af nema að við öll í Washington-ríki leggjumst á eitt til að tryggja afkomu þeirra,“ sagði Inslee er hann skrifaði undir tilskipunina. Hann bætti svo við ef háhyrningarnir og laxarnir hyrfu myndu áhrifin vara kynslóðum saman.
Í frétt Seattle Times kemur fram að vísindamennirnir ætli að fylgja Tahlequah eftir þar til hún sleppi takinu á kálfinum sínum. Þá vonast þeir til að geta sótt hræið og fundið dánarorsök sem gæti varpað ljósi á yfirvofandi útdauða stofnsins.