Háhyrningskýrin Tahlequah syndir enn með dauðan kálf sinn um hafið undan vesturströnd Kanada. Vísindamenn óttast um líf hennar. Kýrin sást enn bera hræið seint í gærkvöldi og hafði þá gert það í sextán daga samfellt. Tahlequah bar kálfi sínum 24. júlí. Hann lifði aðeins í hálftíma.
„Ég er algjörlega miður mín,“ segir líffræðingurinn Deborah Giles, sem starfar við háskólann í Washington, í samtali við blaðmann Seattle Times. Giles er í hópi þeirra vísindamanna sem gaumgæfilega hafa fylgst með háhyrningnum síðustu vikur. „Ég græt. Ég trúi því ekki að hún sé enn með kálfinn.“
Giles segist óttast um heilsu Tahlequah, jafnt þá andlegu sem líkamlegu. Hún segir fjölskyldu Tahlequah aðstoða hana við fæðuöflun en engu að síður sé ólíklegt að hún sé að fá þá næringu sem hún þurfi.
Vísindamenn fylgjast gaumgæfilega með kúnni sem í skrám þeirra kallast J35. Hún tilheyrir litlum stofni háhyrninga í Norðvestur-Kyrrahafi sem aðeins telur 75 dýr og er í mikilli útrýmingarhættu. Yngri kýr í hópnum er veik og er nú verið að leita samþykkis yfirvalda á áætlun sem miðar að því að bjarga lífi hennar. Fjölskyldan hefur ekki komið afkvæmi á legg í þrjú ár.
Sú kýr, J50, sást einnig í gær en vísindamennirnir telja að fjölskyldan haldi enn öll hópinn. Starfsmenn bandarísku Haf- og loftslagsstofnunarinnar, NOAA, skiluðu í gær inn gögnum til kanadískra yfirvalda um aðgerðaáætlun til bjargar hinni ungu kú. Hópurinn syndir nú á kanadísku hafsvæði. Áætlunin gerir m.a. ráð fyrir því að koma sýklalyfjum í J50, mögulega með því að sprauta hana. Öll tilskilin leyfi til aðgerðanna hafa fengist hjá yfirvöldum í Washington-ríki.
Háhyrningarnir eru í rauninni að svelta í hel, líklega vegna þess að þeirra aðalfæða, chinook-laxinn, er nú af skornum skammti. Háhyrningar éta venjulega um 30 slíka fiska á dag en þar sem löxunum hefur fækkað á búsvæðum háhyrninganna hafa þeir orðið að eyða meiri orku en áður í að veiða smærri bráð.
Önnur ógn steðjar einnig að háhyrningastofninum; tvöföldun Trans Mountain-olíuleiðslunnar. Við það mun olíuflutningaskipum, sem fara um búsvæði háhyrninganna, fjölga sjöfalt. Til stendur að hefja framkvæmdir nú í ágúst en fjölmörg náttúruverndarsamtök hafa varað við hættunni sem auknir olíuflutningar gætu skapað í þessu viðkvæma vistkerfi hafsins.
Almennt eru ofangreind atriði taldar helstu skýringarnar á fækkun í stofni háhyrninga á þessum slóðum en fleira gæti þó komið til. Vísindamönnum tekst mjög sjaldan að kryfja hræ háhyrninga því þau sökkva oftast til botns eða skolar á land á afskekktum svæðum. Ekki er útilokað að sjúkdómar hrjái fjölskylduna, mögulega veirusýkingar sem borist hafa í hana frá mönnum.
Þá er einnig mögulegt að breytingar á hafstraumum og þar með hitastigi sjávar hafi áhrif. Massi sjávar, sem fengið hefur uppnefnið „hitaklessan“ (TheBlob), hefur t.d. hækkað hitastig sjávar á afmörkuðum svæðum í Kyrrahafi um allt að sex gráður.
Suðlægi, staðbundni háhyrningahópurinn, sem Tahlequah tilheyrir, heldur yfirleitt til í Salish-hafi í þröngu sundi milli British Columbia og Washington-ríkis. Stofninn eltir chinook-laxinn en þar sem honum hefur fækkað hefur ferðamynstur háhyrninganna breyst.