Telja daga Löfven á stjórnarstóli talda

Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar sýnir ekki á sér neitt fararsnið. …
Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar sýnir ekki á sér neitt fararsnið. Stjórnmálaskýrendur telja daga hans á forsætisráðherrastóli þó vera talda. AFP

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóða, kveðst ekki ætla að segja af sér eftir niðurstöður þingkosninga í Svíþjóð í gær. Sósíaldemókratar, flokkur Löfvens, hafði fengið 101 þingsæti  er búið var að telja 99,95% atkvæði. Fengu Sósíaldemókratar 28,4% atkvæða, sem er 2,8% minna en síðast.

Rauðgræna blokk­in, sem sam­an­stend­ur af Sósí­al­demó­kröt­um, Græn­ingj­um og Vinstri­flokkn­um, fékk 144 þing­sæti, en Hægribandalagið fékk einu þingsæti minna eða 143 þingsæti. Svíþjóðardemókratarnir fengu svo 62 þingsæti og eru nú þriðji stærsti flokkurinn á eftir Sósíaldemókrötum og Modera­terna.

Flestir stjórnmálaskýrendur virðast þó þeirrar skoðunar að dagar Löfven á stóli forsætisráðherra séu taldir og telja orð hans um endalok blokkapólitíkur til merkis um það. „Eng­inn einn flokk­ur get­ur leitt Svíþjóð, en þeir sem vilja bæta landið verða að taka sig sam­an,“ sagði Löfven.

Er það mat stjórnmálaskýrenda Aftonbladet að Ulf Kristerson, formaður Moteraterna, verði sá sem fyrst leggi upp í stjórnarmyndunarviðræður, þó að flokkurinn hafi tapað 14 þingsætum frá síðustu kosningum.

Jimmie Åkes­son, leiðtogi Svíþjóðardemókratanna, hefur raunar þegar boðið Kristers­son til viðræðna og segir það í sam­ræmi við niður­stöður kosn­ing­anna.

Stjórnmálaskýrendur segja þó mikla óvissu um það hvernig stjórnarmyndunarviðræður eigi eftir að ganga, enda þurfi blokkirnar sem flokkarnir höfðu skipað sér í mögulega að riðlast svo hægt verði að mynda stjórn.

Segir danska ríkisútvarpið að niðurstaðan kunni í raun að ráðast ekki af því hversu marga þingmenn væntanleg stjórn fái til liðs við sig, heldur hversu margir þingmenn séu henni mótfallnir.

Þá ríkir að mati sænskra og danskra stjórnmálaskýrenda ekki minni óvissa um það hvort  sú stjórn sem mynduð verði muni halda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert