Mikilvægt er fyrir vísindamenn að finna háhyrninginn J50, lífs eða liðinn. Komast verður að því af hverju dýrið veiktist í fyrra og hóf að horast hratt. Háhyrningskýrin J50, eða Scarlet eins og hún var oft kölluð, var ein af 75 dýrum í stofni suðlæga, staðbundna háhyrningsins. Reynist það rétt sem vísindamenn óttast mest, að hún sé dauð, eru aðeins 74 dýr eftir í heiminum af þessum stofni sem er þegar í mikilli útrýmingarhættu.
Ekkert hefur nú spurst til J50 í rúmlega viku. Í gær og fyrradag var gerð umfangsmikil leit að henni úr lofti og af sjó. Einnig voru fjörur gengnar. Fjölskylda hennar sást þrisvar á sundi en unga kýrin, rúmlega þriggja ára að aldri, var hvergi sjáanleg. Dregið hefur nú verið úr leitinni.
Suðlægu, staðbundnu háhyrningarnir halda til undan vesturströnd Kanada og Bandaríkjanna á hafsvæði á milli British Columbia og Washington-ríkis. Þeir lifa helst á laxi en hann er nú af skornum skammti á svæðinu af ýmsum ástæðum, m.a. að því er talið er vegna ofveiði, hávaðamengunar frá bátum og stíflna sem reistar hafa verið í ám í British Columbia. Háhyrningarnir hafa ekki komið afkvæmi á legg í þrjú ár. Kálfur sem fæddist kú úr hópnum í sumar drapst um hálftíma eftir fæðingu og vakti það heimsathygli er móðirin synti með hræ hans um sjóinn í sautján sólarhringa.
Í venjulegu árferði ættu fjórir til fimm kálfar að fæðast í fjölskyldunni árlega, segir í umfjöllun New York Times. Sem dæmi fæddust níu kálfar árið 2015 en að minnsta kosti þrír þeirra eru nú dauðir. Mögulega er sá fjórði dauður: Scarlet.
Vísindamenn, m.a. frá bandarísku hafrannsóknarstofnuninni NOAA, sem fylgst hafa vel með háhyrningunum, segjast hafa séð vísbendingar um að J50 væri öll. Þannig hafi hegðun fjölskyldu hennar breyst. Fjölskyldan, m.a. móðir hennar, hafði oft dregist aftur úr hópnum á sundi að undanförnu til að bíða eftir Scarlet sem var orðin máttfarin. En síðustu daga hefur fjölskyldan synt af meiri krafti um hafið.
Í ítarlegri fréttaskýringu Seattle Times um málið segir að J50 hafi veikst í fyrra. Hún hafi þá tekið að horast. Í sumar útfærði NOAA ítarlega áætlun um hvernig reynt yrði að bjarga lífi hennar, m.a. með því að gefa henni sýklalyf og fæðu. Þá kom einnig sú hugmynd upp að reyna að króa hana af og setja í nokkurs konar sóttkví um tíma. Hætt var við það þar sem það hefði getað valdið móður hennar, sem synti ávallt við hlið hennar, streitu. Slík aðgerð hefði mögulega valdið meiri skaða.
Það óvenjulega átti sér stað á fimmtudag að allar þrjár fjölskyldur suðlægu, staðbundnu háhyrninganna, sem vísindamenn aðgreina með bókstöfunum J, K og L, komu saman í nágrenni Race Rocks suður af Victoria. Þar léku þeir sér fjörlega í sjónum. Slíkir fundir eru það óvenjulegir að einhverjir telja að um einhvers konar minningarathöfn um Scarlet hafi verið að ræða þó margir vísindamenn vilji fara varlega í að yfirfæra slíkar mannlegar athafnir á önnur dýr. „Sú staðreynd að þessi fundur þeirra átti sér stað og að J50 var ekki á honum þýðir að okkar mati að hún sé farin og að fjölskylda hennar sé að takast á við sorgina,“ segir Robb Krehbiel, forsvarsmaður dýraverndunarsamtakanna Defenders of Wildlife, í samtali við Global News.
Það var svo eftir þennan fund sem samtökin Centre for Whale, sem í samstarfi við NOAA hafa það hlutverk að fylgjast með háhyrningunum, gáfu það út að háhyrningurinn J50 væri talinn af.
Kanadískir vísindamenn, sem starfa hjá hinu opinbera í heimalandi sínu, eru ekki jafn yfirlýsingaglaðir og vilja enn halda í þá von að kýrin finnist á lífi. „Leit mun halda áfram um helgina,“ segir í tilkynningu frá kanadísku Veiða- og hafrannsóknarstofnunni (DFO). Þá segir að enn sé neyðaráætlun í gildi og finnist unga kýrin á lífi verði reynt að koma henni til bjargar.