Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að Kínverjar reyni að hafa áhrif á bandarísku þingkosningarnar með því að leggja innflutningstolla á bandarískar vörur.
Bandaríkjamenn lögðu innflutningstolla á kínverskar vörur að andvirði 200 milljarða dala í gær. Kínverjar svöruðu í dag með því að tilkynna um nýja tolla á bandarískar vörur að andvirði 60 milljarða dala.
Í röð tísta á Twitter sakaði Trump Kínverja um að beita innflutningstollum í pólitískum tilgangi.
„Kínverjar hafa sagt opinberlega að þeir séu að reyna að hafa áhrif á kosningarnar okkar og breyta þeim með því að ráðast á bændurna okkar, eigendur búgarða og verkamenn vegna þess að þeir eru hliðhollir mér,“ skrifaði Trump.
„Kínverjar hafa notfært sér Bandaríkin í viðskiptaskyni í mörg ár. Þeir vita að ég er sá sem veit hvernig á að stöðva þetta ferli,“ bætti hann við.
„Það verða miklar efnahagslegar hefndaraðgerðir gegn Kína ef ráðist er á bændurna okkar, eigendur búgarða og/eða verkamenn!“
Óljóst er til hvaða opinberu tilkynningar Kínverja Trump var að vísa í tístinu.
.....China has been taking advantage of the United States on Trade for many years. They also know that I am the one that knows how to stop it. There will be great and fast economic retaliation against China if our farmers, ranchers and/or industrial workers are targeted!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) September 18, 2018
China has openly stated that they are actively trying to impact and change our election by attacking our farmers, ranchers and industrial workers because of their loyalty to me. What China does not understand is that these people are great patriots and fully understand that.....
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) September 18, 2018