Hægrimaður kosinn þingforseti

Rosenbad, aðsetur sænsku ríkisstjórnarinnar.
Rosenbad, aðsetur sænsku ríkisstjórnarinnar. mbl.is

Andreas Norlén, þingmaður hægriflokksins Moderaterna, er nýr forseti sænska þingsins en þing kom saman í dag í fyrsta sinn frá kosningum fyrr í mánuðinum.

Það kemur í hlut forsetans nýkjörna að tilnefna næsta forsætisráðherra Svíþjóðar og skal þingið kjósa um hinn tilnefnda innan tveggja vikna. Sá verður að öllum líkindum Ulf Kristersson, leiðtogi Moderaterna sem fer fyrir hægribandalaginu, Alliansen. Flokkarnir fjórir sem standa að hægribandalaginu hafa þó ekki meirihluta á þingi. Saman hafa þeir 143 þingsæti, vinstriflokkarnir þrír hafa 144 og þjóðernisflokkurinn Svíþjóðardemókratar 62.

Kosið verður um framtíð Stefans Löfvens, formanns Sósíaldemókrata, í embætti forsætisráðherra á morgun en búist er við að þingið samþykki vantraust á hendur honum. Hann mun þó áfram leiða starfsstjórn þar til þingforseti tilnefnir nýjan forsætisráðherra.

Andreas Norlén.
Andreas Norlén. Ljósmynd/Af vef sænska þingsins

Norlén hefur setið á þingi frá árinu 2006 en han var áður lagaprófessor við Háskólann í Linköping. Hann var frambjóðandi hægribandalagsins en fyrir kosningarnar, sem voru leynilegar, höfðu þingmenn Svíþjóðardemókrata gefið út að þeir hygðust kjósa með fulltrúa hægrimanna og tryggja honum þar með kjör. Norlén hlaut 203 atkvæði en Åsa Lindestam, frambjóðandi Sósíaldemókrata, hlaut 145 atkvæði, einu atkvæði meira en sem nemur þingmannafjölda vinstriflokkanna.

Sósíaldemókratar höfðu í síðustu viku lagt til að vinstri- og hægriflokkarnir tilnefndu sameiginlega fulltrúa í embætti þingforseta til þess að Svíþjóðardemókratar væru ekki í oddastöðu. Flokkar hægribandalagsins höfnuðu því boði og úr varð að hvor fylking tilnefndi sinn fulltrúa.

„Mér þykir miður að hægribandalagið skuli hafa hafnað samtali yfir [hægri- og vinstri-] blokkirnar,“ segir Anders Ygeman, þingflokksformaður Sósíaldemókrata, í samtali við SVT. Niðurstaðan sé þingforseti með minni stuðning en ella.

Engin hægristjórn án Sósíaldemókrata

Hægriflokkarnir fjórir hafa þó allir tekið fyrir að mynda ríkisstjórn með stuðningi Svíþjóðardemókrata. Jan Björklund, formaður Frjálslynda flokksins, eins flokkanna fjögurra, segir í samtali við Expressen í dag að ríkisstjórn hægribandalagsins verði ekki mynduð nema með stuðningi Sósíaldemókrata.

Leiðtogar hægribandalagsins fóru þess á leit við Sósíaldemókrata í síðustu viku að flokkurinn veitti minnihlutastjórn þeirra stuðning en því var hafnað. Þrátt fyrir það segist Björklund bjartsýnn á að viðræður við Sósíaldemókrata geti skilað árangri. „Við verðum að ræða saman þvert á blokkir. Ef það gengur ekki þá færumst við nær nýjum kosningum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert