Þing kemur saman í Svíþjóð í dag í fyrsta skipti eftir þingkosningar í landinu fyrr í mánuðinum og verður kosið í embætti þingforseta, sem síðan fær það hlutverk að tilnefna næsta forsætisráðherra.
Óvenjuleg staða er nú uppi í sænska þinginu þar sem eins manns munur er á rauðgrænu blokkinni, sem samanstendur af Sósíaldemókrötum, Græningjum og Vinstriflokknum, sem hlaut 144 þingsæti og bandalagi hægri flokka, sem samanstendur af Moderaterna, Kristilegum demókrötum, Miðflokkinum og Frjálslynda flokkinum, sem hafa 143 þingsæti.
Val þingforsetans, sem er hátt skrifað embætti, skiptir því miklu.
Sænskir sósíaldemókratar greindu frá því í síðustu viku að þeir ætli ekki að leggja til eigin frambjóðanda í embætti þingforseta, heldur vildu þeir samstarf við flokka hægribandalagsins, Alliansen, um næsta þingforseta en hægribandalagið hafnaði samstarfi og bjóða báðar fylkingar því fram eigin fulltrúa.
Embætti þingforseta er hátt skrifað. Frá því stjórnarskráin var endurskoðuð árið 1974 er það nú hlutverk þingforsetans, en ekki kóngsins, að tilnefna forsætisráðherra og þá flokka sem sitja í ríkisstjórn.
Ekki er nauðsynlegt fyrir tillöguna að fá stuðning meirihluta þingsins, því svo framarlega sem meirihluti leggst ekki gegn henni nær hún fram að ganga.