Yfirréttur í Kaupmannahöfn staðfesti í dag dóm héraðsdóms um að Peter Madsen sæti lífstíðarfangelsi fyrir morðið á sænsku blaðakonunni Kim Wall. Lífstíðardómur í Danmörku er að öllu jöfnu 16 ár.
Í dómsorðum kemur fram að Madsen er fundinn sekur um sérlega alvarleg kynferðisbrot gegn Wall og að hafa skipulagt morðið í þaula ásamt því að fara illa með líkamsleifar hennar.
Madsen áfrýjaði niðurstöðu héraðsdóms sem kveðinn var upp 25. apríl. Hann heldur því fram að hún hafi látist af slysförum en viðurkennir að hafa sundurlimað líkið og hent líkamshlutunum í sjóinn í ágúst í fyrra.
Dómshald fór fram í máli Madsen í yfirrétti Kaupmannahafnar í dag áður en dómur var kveðinn upp. Madsen átti lokaorðið áður en hlé var gert á meðan dómarar gerðu upp hug sinn. „Ég er miður mín yfir því sem hefur gerst og finn til með ættingjum Kim,“ sagði Madsen.
Kristian Kirk saksóknari fór fram í lokaávarpi sínu að farið væri fram á lífstíðardóm þar sem Madsen væri brenglaður, úthugsaður og stórhættulegur kynferðisafbrotamaður. Þá væri mikil hætta á því að hann fremdi svipaðan glæp aftur.
Foreldrar Kim og kærasti voru viðstödd dómsuppkvaðninguna í dag, ásamt fjölda fjölmiðlafólks.
Samkvæmt úrskurði yfirréttar er Madsen gert að greiða foreldrum Wall 328.246,14 danskar krónur í miskabætur, eða sem nemur rúmum 5,6 milljónum íslenskra króna. Þá er hann dæmdur til að greiða kærasta Wall 150.000 danskar krónur, eða rúmar 2,5 milljónir íslenskra króna.
Fylgst var með dómsuppkvaðningunni í beinni lýsingu á vef danska ríkisútvarpsins.