Þriðja konan ásakar Kavanaugh

Brett Kavanaugh sem tilnefndur hefur verið í Hæstarétt Bandaríkjanna.
Brett Kavanaugh sem tilnefndur hefur verið í Hæstarétt Bandaríkjanna. AFP

Fram kemur í yfirlýsingu frá lögmanni konu að nafni Julie Swetnick sem gefin var út í dag að hún hefði snemma á níunda áratug síðustu aldar orðið vitni að hegðun af hálfu Brett Kavanaugh, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt í embætti dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna, í garð kvenna sem falið hefði í sér kynferðislega áreitni.

Samkvæmt yfirlýsingunni átti umrædd framkoma Kavanaugh sér stað í partíum á meðan þau voru í miðskóla í Maryland-ríki í Bandaríkjunum. Segir Swetnick að Kavanaugh hafi verið mjög drukkinn í slíkum partíum og hún hafi séð hann meðal annars káfa á stúlkum og grípa í þær með óviðeigandi hætti án þeirra samþykkis.

Swetnick segir Kavanaugh hafa meðal annars þrýst stúlkum upp að sér án samþykkis þeirra og reynt að afklæða þær. Sömuleiðis hafi hann farið kynferðislegum orðum um stúlkur sem hafi verið hugsuð til þess að gera lítið úr þeim og niðurlægja þær. Fullyrðingar Kavanaugh um að hann hafi ekkert slíkt gert í miðskóla væru lygi.

Frá mótmælum í Washington í vikunni gegn skipun Kavanaughs.
Frá mótmælum í Washington í vikunni gegn skipun Kavanaughs. AFP

Fram kemur einnig í yfirlýsingunni að Swetnick, sem hefur unnið lengi fyrir bandarísku alríkisstjórnina samkvæmt frétt AFP, hafi verið hópnauðgað í partíi líklega árið 1982 sem Kavanaugh sótti. Hún heldur því ekki fram að hann hafi tekið þátt í nauðguninni en segir að hann og vinir hans hafi gerst sekir um hliðstæða hegðun.

Swetnick segist hafa orðið vitni að því að Kavanaugh hafi tekið ákveðnar stúlkur fyrir með það fyrir augum að koma vilja sínum fram. Tvær konur hafa sakað Kavanaugh um meint kynferðisofbeldi á níunda áratugnum, háskólaprófessorinn Christine Blasey Ford og Deborah Ramirez sem var með honum við nám í Yale-háskóla.

Ford segir Kavanaugh hafa við annan dreng lokað hana inni í herbergi og komið vilja sínum fram við hana. Hún mun greina frá ásökunum sínum á fundi þingnefndar bandaríska þingsins á morgun. Ramirez segir hann hafa berað sig fyrir framan hana og fengið hana síðan til þess að snerta sig í patríi nokkrum árum síðar.

Yfirlýsing Swetnick var send út af lögmanni hennar, Michael Avenatti, sem einnig er lögmaður klámstjörnunnar Stormy Daniels sem segist hafa stundað kynlíf með Donald Trump Bandaríkjaforseta. Trump hefur ítrekað lýst yfir stuðningi við Kavanaugh og sagt að ásakanirnar í garð hans séu af pólitískum rótum runnar.

Þátttakandi í mótmælum í Washington gegn skipun Kavanaughs.
Þátttakandi í mótmælum í Washington gegn skipun Kavanaughs. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert