Christine Blasey Ford, sem hefur sakað Brett Kavanaugh um að hafa beitt hana kynferðislegu ofbeldi, bar vitni fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í dag og situr nú fyrir svörum nefndarinnar. Síðar í dag mun Kavanaugh koma fyrir nefndina.
Donald Trump Bandaríkjaforseti tilnefndi Kavanaugh sem næsta dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna. Hann útilokar ekki að draga tilnefningu Kavanaugh til baka eftir vitnaleiðslur fyrir nefndinni í dag.
„Ég er ekki hér því mig langar til þess. Ég er dauðhrædd. Ég er hér því það er mín borgaralega skylda,“ sagði Ford meðal annars þegar hún kom fyrir nefndina.
Ford sakar Kavanaugh um að hafa reynt að afklæða hana, að hafa haldið henni fanginni og káfað á henni þegar hún var 15 ára og hann 17 ára, árið 1982. Í kjölfar þess að Ford greindi frá reynslu sinni eftir að tilkynnt var að hann kæmi til greina sem dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna hafa tvær konur til viðbótar stigið fram.
Kavanaugh hefur neitað öllum ásökunum Ford og segir hann að hann muni bera vitni fyrir nefndinni í dag til þess að geta „hreinsað nafn sitt“.
Hér má fylgjast með beinni útsendingu frá vitnaleiðslum dómsmálanefndar öldungadeildarinnar: