Brett Kavanaugh, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt í embætti dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna, neitaði við vitnaleiðslur fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í kvöld að hafa reynt að nauðga Christine Blasey Ford. Kavanaugh segir einnig að staðfestingarferli hans í embætti hæstaréttardómara sé orðið að þjóðarskömm.
Kavanaugh kom fyrir nefndina eftir að Ford hafði flutt sinn vitnisburð og svarað spurningum nefndarmanna í um fjórar klukkustundir. Alls skipar 21 maður nefndina, ellefu repúblikanar og tíu demókratar. Konur eru í minnihluta í nefndinni, alls fjórar, en karlarnir eru sautján.
Dianne Feinstein, öldungadeildarþingmaður Demókrataflokksins, sagði í upphafi vitnaleiðslanna í dag að ekki væri um réttarhöld yfir Ford að ræða heldur væri þetta frekar atvinnuviðtal Kavanaugh. „Er hann sá hæfasti sem við höfum úr að velja?“ spurði Feinstein.
Lindsey Graham, öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins fyrir Suður-Karólínu, segir að vitnaleiðslurnar í dag séu ekki atvinnuviðtal heldur helvíti. „Myndir þú segja að þú hafir upplifað helvíti?“ spurði Graham Kavanaugh. „Ég hef upplifað helvíti og meira,“ svaraði hann.
Rödd Kavanaugh skalf af reiði í upphafi framburðarins þegar hann neitaði staðfastlega að hafa reynt að afklæða Ford, að hafa haldið henni fanginni og káfað á henni þegar hún var 15 ára og hann 17 ára, árið 1982.
Frá því að Ford greindi frá reynslu sinni fyrir tveimur vikum hafa tvær konur til viðbótar stigið fram.
„Ég hef aldrei misnotað neinn kynferðislega, ekki í framhaldsskóla, ekki í háskóla, aldrei,“ sagði Kavanaugh. Rödd hans brast margsinnis í framburði hans og hann tók sér mörg hlé til að væta kverkarnar. „Ég er saklaus af þessum ásökunum,“ sagði hann jafnframt.
Ford sagði í framburði sínum fyrr í dag að hún væri 100 prósent viss um að Kavanaugh væri árásarmaður hennar og að engar líkur væru á að það væri einhver annar.
Kavanaugh sagði að frá því að ásakanirnar komu fram hefði fjölskylda hans og nafn hans verið dregið niður í svaðið og mannorð hans eyðilagt vegna rangra ásakana. Hann hyggst hins vegar ekki draga sig út úr ráðningarferlinu. Hann vill enn þá verða dómari við Hæstarétt Bandríkjanna.
„Ég læt ekki hræða mig til að draga mig í hlé frá þessu ferli. Þið sigrið mig kannski í lokaatkvæðagreiðslunni en þið fáið mig aldrei til að hætta. Aldrei,“ sagði Kavanaugh. Trump hefur ekki útilokað að draga tilnefningu Kavanaugh til baka eftir vitnaleiðslur fyrir nefndinni í dag.
Hann hefur lokið við framburð sinn en nefndarmönnum gefst nú kostur á að spyrja Kavanaugh spurninga. Hér má fylgjast með fundi nefndarinnar í beinni útsendingu: