„Þeir skemmtu sér á minn kostnað“

Christine Blasey Ford og Brett Kavanaugh.
Christine Blasey Ford og Brett Kavanaugh. AFP

„Ég sver að þessar ásakanir eru ekki sannar,“ sagði Brett Kavan­augh, sem Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti hef­ur til­nefnt í embætti dóm­ara við Hæsta­rétt Banda­ríkj­anna, við lok vitnaleiðslu fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings.

Kavanaugh neitar því að hafa reynt að nauðga Christ­ine Blasey Ford þegar hún var fimmtán ára og hann sautján. Ford bar vitni á undan Kavanaugh en í kjölfar þess að hún sagði frá reynslu sinni hafa tvær konur til viðbótar sakað Kavanaugh um kynferðisofbeldi.

„Ég er ekki hér af því að mig langi til þess. Ég er dauðhrædd,“ sagði Ford. Hún sagði að Kavanaugh hefði greinilega verið ölvaður þegar hann reyndi að afklæða hana og nauðga í partíi þegar hún var fimmtán ára.

„Hann byrjaði að káfa á mér og þrýsta sér að mér. Ég reyndi að kalla á hjálp en þegar ég gerði það hélt hann fyrir munninn á mér til að koma í veg fyrir að ég hrópaði. Það var erfitt fyrir mig að ná andanum og ég hélt að hann myndi drepa mig óviljandi,“ sagði Ford.

Christine Blasey Ford.
Christine Blasey Ford. WIN MCNAMEE

Spurð um hvað væri henni minnisstæðast í tengslum við meinta árás Kavanaugh svaraði Ford að það væri hlátur Kavanaugh og Mark Judge, vinar hans. „Þeir skemmtu sér á minn kostnað,“ sagði Ford sem náði að flýja þegar Judge hoppaði ofan á hana og Kavanaugh.

Alls skipar 21 maður nefnd­ina; ell­efu re­públi­kan­ar og tíu demó­krat­ar. Kon­ur eru í minni­hluta í nefnd­inni, alls fjór­ar, en karl­arn­ir eru sautján.

Trump ánægður með Kavanaugh

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt Kavanaugh í embætti dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna. Kavanaugh sagði að staðfestingarferli sitt hefði snúist upp í þjóðarskömm en öldungadeildarþingmenn hafa sagt að ekki sé um réttarhöld að ræða, heldur sé Kavanaugh í atvinnuviðtali.

Trump var ánægður með sinn mann að vitnaleiðslum loknum og sagði hann hafa verið „kraftmikinn, heiðarlegan og grípandi“. Forsetinn sagði enn fremur að hegðun demókrata væri skammarleg.

Kavanaugh reiddist þegar hann sagði að málið væri „skipulagt pólitískt samsæri“ gegn sér. Hann sagði mannorð sitt flekkað eftir „þessar grimmu og fáránlegu ásakanir“.

Brett Kavanaugh.
Brett Kavanaugh. WIN MCNAMEE

„Ég er saklaus af þessum ásökunum. Ég hef aldrei áreitt neinn kynferðislega. Kynferðisofbeldi er hræðilegt. Þetta er eins og sirkus og afleiðingarnar munu fylgja okkur áratugum saman,“ sagði Kavanaugh.

Hann brotnaði niður þegar hann lýsti því þegar hann og tíu ára dóttir hans fóru með bænir í gærkvöldi. „Dóttir mín sagði að við skyldum biðja fyrir þessari konu. Það er mikil viska frá tíu ára barni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert