FBI rannsakar Kavanaugh á ný

Dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings hefur fjallað um tilnefningu Kavanaugh í embætti …
Dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings hefur fjallað um tilnefningu Kavanaugh í embætti dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna síðustu tvo daga. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur fallist á beiðni dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings að alríkislögreglan (FBI) rannsaki að nýju ásakanir um kynferðisbrot á hendur Brett Kavanaugh, sem forsetinn hefur tilnefnt í embætti dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna.

Nefndin samþykkti fyrr í kvöld að tilnefna Kavanaugh í embættið, með því skilyrði að rætt yrði um nýja bakgrunnsrannsókn á Kavanaugh, sem nú hefur verið samþykkt. Rannsóknin á að ná yfir núverandi ásakanir gegn Kavanaugh.

Jeff Flake, þingmaður Repúblikanaflokksins, sem var óákveðinn um afstöðu sína Kavanaugh, samþykkti að ný bakgrunnsrannsókn yrði framkvæmd með því skilyrði að henni verði lokið eigi síðar en næsta föstudag, 5. október.

Öldungadeildaþingmaður repúblikana fyrir Arizona, Jeff Flake, gaf sér góðan tíma …
Öldungadeildaþingmaður repúblikana fyrir Arizona, Jeff Flake, gaf sér góðan tíma til umhugsunar um afstöðu sína gagnvart tilnefningu Kavanaugh í embætti dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna. AFP

Að öllu óbreyttu mun öldungadeild þingsins greiða atkvæði um tilnefningu Kavanaugh í embætti hæstaréttardómara. Repúblikanar hafa lágmarksmeirihluta á þinginu, 51 þingmann gegn 49 þingmönnum demókrata.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert