Kjósa um Kavanaugh í dag

Repúblikanar þrýsta mjög á að greidd verði atkvæði um nýjan dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna í dag. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilnefndi Brett Kavanaugh í embættið en tekist hefur verið á um tilnefninguna að undanförnu.

Kavanaugh hefur verið sakaður um að hafa beitt þrjár konur kynferðislegu ofbeldi og kom hann fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í gær sem og Christ­ine Blasey Ford sem steig fyrst fram og sakaði Kavanaugh um ofbeldi.

Brett Kavanaugh neitaði öllum ásökunum og hét því að hann myndi aldrei gefast upp. Áður hafði Ford sagt að árásin fyrir 36 árum hafi mótað allt hennar líf.

Trump var ánægður með frammistöðu Kavanaugh fyrir nefndinni og sagði hann heiðarlegan. Hvetur Trump öldungadeildina til að greiða atkvæði sem fyrst.

Hann sakar þingmenn demókrata í öldungadeildinni um óheiðarleika og Kavanaugh sakaði þá um að reyna að eyðileggja mannorð hans og fjölskyldu hans.

Vitnaleiðslurnar stóðu yfir í níu klukkustundir í gær og nýtur Ford mikils stuðnings frá fólki á samfélagsmiðlum, ekki síst frá fólki sem hefur stutt #MeToo-hreyfinguna.

Fastlega er gert ráð fyrir því að dómstólanefndin greiði atkvæði í dag líkt og áætlað var en ekki er vitað nákvæmlega hvenær öldungadeildin öll greiðir atkvæði. Væntanlega ekki fyrr en um miðja viku.

Dómarar við Hæstarétt eru skipaðir til lífstíðar og hafa dómararnir níu sem þar sitja síðasta orðið þegar kemur að bandarískum lögum. Má þar nefna málefni eins og þungunarrof og áskoranir á stefnu stjórnvalda.

Frétt BBC

„Kavanaugh dómari sýndi Bandaríkjunum nákvæmlega hvers vegna ég tilnefndi hann,“ skrifaði Trump á Twitter aðeins nokkrum mínútum eftir að yfirheyrslum lauk.

„Vitnisburður hans var kraftmikill, heiðarlegur og hrífandi,“ sagði Trump enn fremur. 

Leiðtogi meirihlutans í öldunadeildinni, Mitch McConnell, segir að farið verði að ósk Trump  og nefndin greiði atkvæði í dag, en þar sitja 11 repúblikanar og 10 demókratar. Í öldungadeildinni er 51 repúblikani og 49 demókratar.

„Við munum greiða atkvæði í fyrramálið og við munum senda málið áfram,“ sagði McConnell við fréttamenn í gærkvöldi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert