Fulltrúar í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings hafa samþykkt tilnefningu Brett Kavanaugh sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt í Hæstarétt Bandaríkjanna.
Þrjár konur hafa stigið fram og sakað Kavanaugh um kynferðisofbeldi. Tvær gagnvart þeim sjálfum en sú þriðja segist hafa orðið vitni að slíkri hegðun af hans hálfu. Meint brot áttu sér stað þegar Kavanaugh var í miðskóla og þegar hann stundaði nám við Yale-háskóla á níunda áratug síðustu aldar. Hann hefur hafnað ásökununum.
Ein af konunum, Christine Blasey Ford, bar vitni fyrir dómsmálanefndinni í gær. Að hennar sögn lokuðu Kavanaugh og annar drengur hana inni í herbergi í partíi og reyndi Kavanaugh að koma fram vilja sínum.
Ellefu fulltrúar repúblikana í nefndinni styðja tilnefningu Kavanaugh en tíu fulltrúar demókrata voru henni mótfallnir.
Þingmaðurinn Jeff Flake, sem á sæti í öldungadeildinni fyrir Repúblikanaflokkinn, lýsti yfir stuðningi við tillöguna en hann hafði áður sagt að hann væri óviss um hvað hann myndi gera.
Enn fremur lagði Flake til að atkvæðagreiðslu í öldungardeildinni yrði frestað þar til FBI hefði rannsakað ásakanirnar gegn Kavanaugh.
Öldungadeild Bandaríkjaþings mun greiða atkvæði um tillöguna í næstu viku.