Kellyanne Conway, einn aðstoðarmanna Donald Trump Bandaríkjaforseta, hefur greint frá því að hún hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi þegar hún var yngri.
„Ég er fórnarlamb kynferðisofbeldis,“ sagði Conway, sem er 51 ára, í samtali við CNN. Hún greindi ekki nánar frá atvikinu en hefur áður gefið í skyn að þingmaður hafi áreitt hana.
Ummælin lét Conway falla þegar hún varði Brett Kavanaugh, sem forsetinn hefur tilnefnt í embætti dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna.
Þrjár konur hafa stigið fram og sakað Kavanaugh um kynferðisofbeldi. Ein þeirra, Christine Blasey Ford, bar vitni fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings á fimmtudag vegna ásakana sinna.
„Ég finn mikið til með fórnarlömbum kynferðisofbeldis,“ sagði Conway í dag.
„Ég er fórnarlamb kynferðisofbeldis. Ég geri ekki ráð fyrir því að Kavanaugh eða einhver annar eigi að bera ábyrgð á því. Þú verður að bera ábyrgð á þinni framkomu,“ sagði Conway og hélt áfram:
„Við komum mismunandi fram við fólk, hvort sem það er gerendur eða þolendur. Það fer eftir stjórnamálaviðhorfum þeirra og kyni. Það eru stór mistök.“
Bandaríska alríkislögreglan FBI hefur fram til föstudags til að ljúka bakgrunnsrannsókn sinni á Kavanaugh. Dómsmálanefnd öldungadeildarinnar samþykkti að tilnefning Kavanaugh færi áfram til öldungadeildarinnar gegn því skilyrði að FBI rannsakaði ítarlegar ásakanir kvennanna gegn honum.
Conway var kosningastjóri Trump fyrir forsetakosningarnar 2016 og þá varði hún forsetann verðandi í fjölmiðlum þegar hún var spurð hvort hegðun hans gagnvart konum hefði ekki verið óviðeigandi.
„Ég myndi tala við suma þingmenn. Þegar ég var yngri og fallegri voru þeir að nudda sér upp við stelpur, stinga tungunum ofan í kok á konum, án þeirra vilja,“ sagði Conway.
Ári síðar sagði Conway að það hefði verið hennar „#MeToo-augnablik“ en fólki væri sama vegna pólitískra skoðana hennar.