„Ég veit ekki hvað ég á að gera“

Farþegar eru sagðir ósáttir við að ekki sé hægt að …
Farþegar eru sagðir ósáttir við að ekki sé hægt að ná sambandi við skrifstofur Primera Air, síminn sé lokaður og ekki er hægt að komast inn á vefinn. mbl.is/ÞÖK

Farþegar og jafnvel starfsfólk Primera Air voru strandaglópar á flugvöllum víða um heim eftir að tilkynnt var um greiðsluþrot flugfélagsins síðdegis í gær. Erlendir fjölmiðlar hafa fjallað um gjaldþrot Primera Air og áhrif þess á farþega.

Þannig voru ferðalangar dönsku ferðaskrifstofunnar Bravo Tours m.a. strandaglópar á flugvelli í Grikklandi í gær og 700 Svíar voru fastir í Grikklandi og á Spáni eftir að öllu flugi Primera Air var hætt. Flugi Primera Air frá Stansted-flugvelli í Bretlandi til Washington og New York í Bandaríkjunum var skyndilega frestað í gær og var farþegum sagt að mæta aftur á flugvöllinn í dag.

Situr bara á flugvellinum

Námsmaðurinn Pavithra Priyadarshini komst að því að flugi hennar hafði verið aflýst þegar hún kom á flugvöllinn í Dulles í Bandaríkjunum.

„Ég kom til að tékka inn farangurinn og þá stóð á skiltunum að öllu flugi Primera hefði verið aflýst,“ sagði Priyadarshini. Sjálf hafði hún hvorki nægan pening til að bóka annað flug daginn eftir, né til að dvelja áfram á hóteli.

„Ég vissi ekki hvað ég átti að gera. Ég veit ekki enn hvað ég á að gera, þannig að ég sit bara á flugvellinum,“ hefur BBC eftir Priyadarshini.

Hún hefði reynt að komast í samband við Primera Air, en þjónustuskrifstofan sé „algjörlega lokuð“. Þá hefði hún kannað með flug hjá United Airlines og British Airways, en hefði ekki haft efni á miðanum.

Hún er nú að biðla til fjölskyldu og vina um að safna fyrir sig miðaverðinu svo hún komst aftur heim til Bretlands.

Reiði yfir að miðar væru seldir fram að gjaldþroti

BBC segir fleiri farþega vera ósátta. Simon Carrington sagðist ekki hafa komist að því að Primera Air væri farið á hausinn fyrr en hann reyndi að bóka sig í flug frá Malaga til Manchester. „Ég er brjálaður að þeir hafi ekki sagt neitt og fylltist skelfingu þegar ég las að þeir væru hættir starfsemi,“ sagði hann. Honum tókst að bóka annað flug til Bretlands með skömmum fyrirvara, en þurfti að reiða fram tæpar 60.000 kr. fyrir miðann.

„Ég borgaði flugið með kreditkorti, þannig að vonandi fæ ég það endurgreitt, eins og er þá er þetta hins vegar orðin mjög dýr skotferð.“

Guardian segir neytendatímaritið Which? hafa bent á að Primera Air hafi haldið áfram miðasölu í gær, þrátt fyrir að gjaldþrot væri fyrirsjáanlegt og að áhafnir flugfélagsins hafi verið meðal þeirra sem skildar voru eftir sem strandaglópar víða um heim.

„Farþegar verða réttilega öskureiðir yfir að flugfélagið hafi haldið áfram að selja farmiða fram að þeirri stundu að það varð gjaldþrota, vitandi vits að ekki yrði hægt að nýta þá miða,“ segir Rory Boland, ferðaritstjóri hjá tímaritinu.

Tara Noe ætlaði með eiginmanni sínum að heimsækja fjölskyldu hans í Toronto í Kanada. Hún var mjög ósátt með þjónustuna, sem hún sagði „hræðilega“.

„Það er ekki hægt að ná sambandi við þá. Þeir hafa lokað símalínum og ekki er hægt að komast inn á vef þeirra. Það er allt lokað og maður kemst ekki neitt,“ hefur Guardian eftir Noe.

Verða að koma sér sjálfir heim

BBC segir bresku loftferðastofnunina CAA hafa greint frá því að þeir sem flugu með Primera Air úr landi verði að koma sér sjálfir til baka. Þeir sem keypt hafa pakkaferðir eigi að hafa samband við sína ferðaskrifstofu og eins geti þeir sem greiddu með kreditkorti reynt að fá flugið endurgreitt hjá kortafyrirtækinu. Bresk stjórnvöld hafi hins vegar engar áætlanir uppi um að koma breskum þegnum aftur heim líkt og gert var er Monarch-flugfélagið varð gjaldþrota í fyrra.

Danski fréttamiðill­inn Politiken seg­ir að gjaldþrot Pri­mera hafi áhrif á marga danska farþega og nefn­ir að flug­fé­lagið hafi flutt um 200 þúsund danska farþega á hverju ári.

Danska ferðaskrifstofan Bravo Tours sem er dótturfélag Primera Air hefur í dag og gær unnið hörðum höndum að því að koma farþegum sem eru strandaglópar í Grikklandi og víðar heim. Peder Hornshøj, framkvæmdastjóri ferðaskrifstofunnar, sagði flesta þeirra munu komast hem í dag.

„Það eru þó ekki bara þeir sem bíða eftir að komast heim. Við þurfum líka að finna nýja ferðamöguleika fyrir þá sem eru á leið út. Við vorum til að mynda að senda hópa til Azoreyjanna og Rhodos,“ hefur Jyllandsposten eftir Hornshøj.

Þúsundir Dana eiga útistandandi kröfu á Primera

Þúsundir farþega sem nú þegar eiga á kröfu á flugfélagið vegna seinkunar eða aflýsingar flugs fyrr á árinu eru hins vegar sagðir ólíklegir til að fá þær bætur sem þeir eigi inni hjá Primera Air.

Danska ríkisútvarpið DR hefur eftir Gustav Thybo, forstjóra Flyhjælp.dk, sem aðstoðar fólk við að leita réttar síns hjá flugfélögum, að 4.420 farþegar sem flogið hafa með Primera Air eigi nú útistandandi kröfu á flugfélagið vegna seinkana, aflýsingar flugs og ofbókunar.

„Þetta er slæmur dagur á skrifstofunni. Þetta hefur mikil áhrif á okkur,“ sagði Thybo. „Hér eru viðskiptavinir að tapa samanlagt bótakröfum að andvirði 12,6 milljóna danskra króna [um 220 milljónir íslenskra kóna], vegna gjaldþrots Primera Air.“

Slíkt valdi mörgum reiði. „Fólk hefur réttlætiskennd og það vill fá það sem því ber þegar flugfélag hefur ekki komið vel fram við það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert