Þúsundir breskra flugfarþega voru strandaglópar í Bandaríkjunum og í Evrópu í gærkvöldi vegna gjaldþrots flugfélagsins Primera Air.
Fram kemur í umfjöllun Independent að farþegar á Stansted-flugvelli í London hafi fengið tíðindi af gjaldþrotinu er þeir biðu eftir flugi til New York og Washington DC.
Þar segir að á síðasta ári hafi verið tilkynnt um metnaðarfullar áætlunarferðir frá Stansted og Birmingham til New York, Boston, Washington og Toronto, auk áfangastaða í Evrópu á borð við Spán. Áður en ferðirnar gátu hafist varð flugfélagið aftur á móti að hætta við nokkrar áætlunarferðir. Síðar í þessum mánuði áttu svo að hefjast áætlunarferðir frá Manchester til Malaga á Spáni.
Nú sé ljóst að enn eitt lággjaldaflugfélagið sé búið að vera.
BBC greinir frá því að farþegar sem ætluðu að fljúga frá London til New York eða Washington hafi verið beðnir um að mæta ekki á flugvöllinn. Rætt er við Angela Darou frá Kanada sem stóð í biðröð vegna flugs frá París til Toronto ásamt eiginmanni sínum þegar tilkynnt var að hætt hefði verið við flugferðina.
„Allir voru strandaglópar. Ég og maðurinn minn erum á slöppu móteli rétt hjá flugvellinum og reynum í örvæntingu að skrapa saman nógu miklum peningum til að komast heim á annan hátt,“ sagði hún.
Ferðalagið átti að vera ódýrt en mun líklega kosta þau um 300 þúsund krónur aukalega.
Danski fréttamiðillinn Politiken segir að gjaldþrot Primera hafi áhrif á marga danska farþega og nefnir að flugfélagið hafi flutt um 200 þúsund danska farþega á hverju ári.
Bandaríska vefsíðan USA Today fjallar einnig um gjaldþrotið og segir að fjöldi farþega hafi orðið strandaglópar eftir að sjö flugferðum var aflýst á milli Bandaríkjanna og Evrópu í gær.
Fram kemur að Primera Air hafi í ágúst hafið áætlunarferðir á milli flugvallarins Washington Dulles og London með fimm vikulegum flugferðum. Til stóð að fjölga þeim.
Vitnað er í tilkynningu frá flugfélaginu þar sem tilkynnt var um þrjár nýjar áætlunarferðir á milli Bandaríkjanna og Evrópu. Til stóð að fljúga til Brussel frá Boston-flugvelli, Newark Liberty og Washington Dulles.