Kavanaugh efndi til ryskinga á bar

Brett Kavanaugh. Samnemendum hans í Yale ber ekki saman um …
Brett Kavanaugh. Samnemendum hans í Yale ber ekki saman um hvort hann hafi sýnt árásargirni undir áhrifum áfengis, eða sést drekka í óhófi. AFP

Brett M. Kavanaugh, dómaraefni Donald Trumps Bandaríkjaforseta, efndi til ryskinga á bar er hann var háskólanemi í Yale, að því er fram kemur í lögregluskýrslu um atvikið.

New York Times, sem hefur afrit af skýrslunni, segir atvikið hafa átt sér stað í september 1985 og að Kavanaugh og fjórir aðrir menn hafi verið yfirheyrðir í kjölfarið af lögreglunni í New Haven. Í skýrslunni kemur fram að maður hafi sakað Kavanaugh um að kasta klaka í sig að ástæðulausu.

Vitni að ryskingunum segir körfuboltaleikmanninn og vin Kavanaugh, Chris Dudley, því næst hafa slegið manninn í eyrað með glasi með þeim afleiðingum að það blæddi úr eyra mannsins, sem þurfti meðhöndlunar við á spítala.

Í skýrslunni kemur fram að Dudley hafi hafnað ásökuninni og að Kavanaugh hafi neitað að segja til um hvort hann hafi kastað klakanum eða ekki. Vísað er til ryskinganna sem „árásar“ en ekki kemur fram hvort einhver hafi verið handtekinn vegna málsins. Ekkert bendir hins vegar til að kærur hafi verið lagðar fram.

Chris Dudley, fyrrverandi körfuboltaleikmaður og vinur Kavanaughs, var í hópi …
Chris Dudley, fyrrverandi körfuboltaleikmaður og vinur Kavanaughs, var í hópi þeirra sem dómaranefndin ræddi við. Hann kannast ekki við að hafa séð Kavanaugh ofurölvi. AFP

Dólgs­legur og árás­ar­gjarn­ er hann var drukk­inn

New York Times greindi frá því í gær að Char­les Ludingt­on, sem var bekkjarfélagi Kavanaugh í Yale, hafi sagt dómarann hafa logið eiðsvarinn um drykkjuvenjur sínar. Minntist hann þess að haf séð Kavan­augh þvoglu­mælt­an og reik­ul­an í spori eft­ir mikla áfeng­isneyslu í Yale. Þá seg­ir hann Kavan­augh oft hafa verið dólgs­leg­an og árás­ar­gjarn­an er hann var drukk­inn.

„Ég get for­takslaust sagt að með því að neita al­farið þeim mögu­leika að hann hafi nokk­urn tím­ann orðið fyr­ir minn­istapi sök­um drykkju og með því að gera lítið úr tíðni og magni drykkju sinn­ar, þá var Brett ekki að segja satt,“ sagði Ludingt­on.

Fleiri samnemendur Kavanaugh hafa einnig sagt hann hafa sýnt árásargirni undir áhrifum. Aðrir, m.a. Dudley, segjast ekki kannast við að hafa nokkurn tímann séð hann drekka í óhófi.

FBI búið að yfirheyra vin Kavanaugh úr unglingasamkvæminu

Afgreiðsla öldungadeildar Bandaríkjaþings bíður nú niðurstöðu úr rannsókn bandarísku alríkislögreglunnar FBI á ásökununum og er búist við að FBI muni yfirheyra Kavanaugh og nokkrar þeirra kvenna sem hafa ásakað hann um kynferðislegt ofbeldi.

Þannig mun FBI ræða við sál­fræðipró­fess­or­inn Christ­ine Blasey Ford, sem sakað hefur Kavan­augh um kyn­ferðis­legt of­beldi í unglingasamkvæmi á níunda áratug síðustu aldar.

Hefur FBI þegar rætt við Mark Judge, vin Kavanaugh, sem á að hafa verið með honum í áðurnefndu samkvæmi. Sagði Judge í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í síðustu viku að hann „muni ekki eftir partíinu sem Ford hafi lýst í bréfi sínu“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert