Kristersson fær stjórnarmyndunarumboð

Ulf Kristersson, t.h., ásamt Andreas Norlén þingforseta.
Ulf Kristersson, t.h., ásamt Andreas Norlén þingforseta. AFP

Ulf Kristersson, leiðtogi hægriflokksins Moderaterna, hefur fengið umboð forseta sænska þingsins til að mynda ríkisstjórn. Andreas Norlén, þingforseti og samflokksmaður Kristersson, greindi frá þessu í dag en hann hefur síðustu daga fundað með formönnum flokkanna sem eiga sæti á sænska þinginu.

Á blaðamannafundi í þinghúsinu, sem hófst nú fyrir stundu, sagði Kristersson að hann myndi gera allt sem er „löglegt og viðeigandi“ til að mynda ríkisstjórn hægribandalagsins, Alliansen, en að því standa, auk Moderaterna, Frjálslyndir, Miðflokkurinn og Kristilegir demókratar.

Hans fyrsta verk verður, að eigin sögn, að ráðfæra sig við formenn hinna flokka hægribandalagsins en því næst vill hann ræða við Stefan Löfven, formann Sósíaldemókrata og sitjandi forsætisráðherra. Mun hann að öllum líkindum freista þess á ný að sannfæra Löfven um að veita minnihlutastjórn hægribandalagsins stuðning.

Aðspurður sagði Kristersson að hann hefði ekki í hyggju að ræða við Svíþjóðardemókrata að sinni heldur hygðist hann einbeita sér að viðræðum við hina samstarfsflokkana í hægribandalaginu og Sósíaldemókrata.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert