Segir þetta „erfiða“ tíma fyrir unga menn

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir þetta vera „erfiða“ og „ógnvekjandi“ tíma fyrir unga menn í Bandaríkjunum. Ummælin lét forsetinn falla á sama tíma og hann ítrekaði stuðning sinn við Brett Kavanaugh sem hann tilnefndi í embætti dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna. BBC greinir frá.

Atkvæðagreiðslu um tilnefninguna var frestað í síðustu viku á meðan FBI rannsakar ásakanir um kynferðisbrot á hendur honum.

Christ­ine Blasey Ford steig fram eftir að tilnefningin var kunngjörð og sakaði Kavanaugh um að hafa beitt hana kynferðisofbeldi þegar hún var 15 ára en hann 17 ára. Hún bar vitni fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í síðustu viku og lýsti atburðarásinni eins og hún upplifði hana.

„Hann byrjaði að káfa á mér og þrýsta sér að mér. Ég reyndi að kalla á hjálp en þegar ég gerði það hélt hann fyr­ir munn­inn á mér til að koma í veg fyr­ir að ég hrópaði. Það var erfitt fyr­ir mig að ná and­an­um og ég hélt að hann myndi drepa mig óvilj­andi,“ sagði Ford, en hún tók fram að hana langaði ekki til að sitja fyrir framan nefndina. Hún væri dauðhrædd. Kavanaugh kom einnig fyrir nefndina og sagði ásakanirnar ekki sannar.

Trump segir það erfiða stöðu að vera sekur uns sakleysi …
Trump segir það erfiða stöðu að vera sekur uns sakleysi er sannað. AFP

Trump sagði á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í dag að hann tryði því tilnefning Kavanaugh yrði samþykkt. Gerist það verður það mikill sigur fyrir forsetann og ríkisstjórn hans, enda festir það íhaldssaman Hæstarétt í sessi næstu árin.

„Það eru mjög ógnvekjandi tímar fyrir unga menn í Bandaríkjunum þegar þú getur verið sekur um eitthvað sem þú ert í raun ekki sekur um. Þetta eru mjög erfiðir tímar,“ sagði forsetinn.

„Þú gætir hafa hagað þér fullkomlega allt þitt líf en svo getur einhver sakað þig um eitthvað – það þarf ekki endilega að vera kona – en einhver getur komið með ásakanir og þú verður sjálfkrafa sekur.“

Forsetinn vildi lítið ræða um sjálfa tilnefninguna til Hæstaréttar og sagðist vera að bíða eftir því að FBI lyki rannsókn sinni. Sagðist hann ekki vilja trufla neitt.

Hann gagnrýndi hins vegar vitnisburð Ford fyrir dómsmálanefndinni. „Það er eitthvað mikið að ef maður getur verið fyrirmyndareinstaklingur í 35 ár en svo kemur einhver og segir mann hafa gert hitt eða þetta og tiltekur þrjú vitni sem ekki staðfesta það sem sagt er.“

Trump sagði það „mjög ógnvekjandi stöðu“ að vera „sekur uns sakleysi er sannað“.

„Allt mitt líf hef ég heyrt að maður sé saklaus uns sekt er sönnuð, en nú er það sekur uns sakleysi er sannað. Það er mjög erfið staða.“

Kavanaugh hefur neitað ásökunum Ford.
Kavanaugh hefur neitað ásökunum Ford. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert