Hafa ekki enn rætt við Ford

Christine Blasey Ford.
Christine Blasey Ford. AFP

Starfsmenn bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, sem rannsaka ásakanir á hendur Brett Kavanaugh dómara um kynferðislegt ofbeldi hafa enn ekki rætt við Christine Blasey Ford sem er sú sem steig fyrst fram og sakaði dómaraefnið um kynferðislegt ofbeldi. Rannsókninni á að vera lokið eftir tvo daga.

BBC hefur þetta eftir lögmönnum Ford en þeir segja í bréfi sem þeir rituðu til FBI að það sé óhugsandi að rannsókninni ljúki án þess að rætt sé við hana. Ford bar vitni fyrir dóms­mála­nefnd öld­unga­deild­ar Banda­ríkjaþings í síðustu viku. Þar greindi hún frá því að Kavanaugh hafi ráðist á hana þegar hún var unglingur og reynt að nauðga henni. Dómarinn neitar því alfarið. Alls hafa þrjár konur sakað Kavanaugh um kynferðislegt ofbeldi.

Í bréfi sem lögmenn Ford rituðu í gær til framkvæmdastjóra FBI, Christopher Wray, og aðalsaksóknara FBI, Dana Boente, kemur fram að fimm dagar séu liðnir frá því rannsóknin var sett af stað. Engin viðbrögð hefðu komið fram af hálfu FBI varðandi Ford og boði hennar um að bera vitni hafi ekki verið svarað. 

Í bréfinu kemur jafnframt fram að lögmenn Ford hafi frétt það í gegnum fjölmiðla að FBI ætli sér ekki að ræða við Ford né heldur Kavanaugh. „Við vonum að þetta sé ónákvæmur fréttaflutningur,“ segir í bréfinu.

Vitað er að FBI hefur rætt við Mark Judge, æskuvin Kavanaugh, sem Ford sagði að hefði verið inni í herberginu þegar hún varð fyrir árásinni. Judge sagði í skriflegum vitnisburði fyrir dómsmálanefndinni að hann ræki ekki minni til þess. Hann var ekki beðinn um að bera vitni fyrir nefndinni líkt og Ford og Kavanaugh.

Jafnframt var rætt við bekkjarsystur dómarans frá Yale, Deborah Ramirez, en hún segir að hann hafi berað kynfæri sín í andlit hennar þegar þau voru viðstödd drykkjukeppni.

Trump ítrekaði í gær stuðning sinn við Kavanaugh og sagðist ekki trúa öðru en öldungadeildin myndi greiða atkvæði með tilnefningunni. Hann sagði við fréttamenn í Hvíta húsinu í gær að hann hafi allt sitt líf heyrt að þú sért saklaus þangað til sekt sé sönnuð. En nú sé því þannig komið að þú ert sekur þangað til sakleysi þitt er sannað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert