„Ógeðfelld“ ummæli Trump

Þingmaðurinn Jeff Flake heldur ræðu í lok síðasta mánaðar.
Þingmaðurinn Jeff Flake heldur ræðu í lok síðasta mánaðar. AFP

Tveir þingmenn Repúblikanaflokksins hafa gagnrýnt Donald Trump Bandaríkjaforseta harðlega fyrir að gera grín að Christine Blasey Ford sem hefur sakað Brett Kavanaugh um kynferðislegt ofbeldi.

„Hvorki staður né stund“

Jeff Flake, einn þriggja repúblikana sem eru sagðir óákveðnir yfir því hvort þeir greiði atkvæði með kjöri Kavanaugh í Hæstarétt Bandaríkjanna, sagði ummæli Trump í garð Ford vera „ógeðfelld“.

„Þetta var hvorki staður né stund fyrir ummæli eins og þessi,“ sagði Flake í viðtali við NBC News. „Að ræða svona viðkvæmt mál opinberlega á kosningafundi er einfaldlega rangt. Ég vildi óska að hann hefði ekki gert þetta. Þetta var frekar ógeðfellt.“ 

Susan Collins.
Susan Collins. AFP

Sagði ummælin röng 

Susan Collins öldungadeildarþingmaður, sem einnig er sögð óákveðin varðandi kjör Kavanaugh, sagði að ummæli Trump væru „ekkert annað en röng“.

Ummæli Collins og Flake varpa ljósi á þá óvissu sem er ríkjandi varðandi örlög Kavanaugh. Bandaríska alríkislögreglan, FBI, rannsakar nú ásakanir þriggja kvenna um að Kavanaugh hafi verið drykkfelldur og misnotað konur kynferðislega þegar hann stundað nám á níunda áratugnum.

Einnig eru uppi áhyggjur vegna þess að FBI hefur aðeins eina viku til að rannsaka ásakanirnar vegna þrýstings frá repúblikönum í öldungadeild Bandaríkjaþings og Hvíta húsinu. Fyrir vikið nær FBI ekki að yfirheyra fjölda vitna.

Frá mótmælum í borginni Portland fyrir utan skrifstofu Susan Collins …
Frá mótmælum í borginni Portland fyrir utan skrifstofu Susan Collins vegna málsins. AFP

Vill kosningu í þessari viku

Repúblikanar vonast til þess að kjör Kavanaugh í embættið verði til þess að Hæstiréttur verði íhaldssamari. Mitch McConnell, leiðtogi öldungadeildarinnar, krafðist þess í dag að kosningin færi fram í þessari viku. „Öldungadeildin mun kjósa um tilnefningu hans í þessari viku,“ sagði McConnell.

„Það er kominn tími til að ljúka þessari vandræðalegu uppákomu,“ sagði hann og bætti við að gagnrýnin í garð Kavanaugh væri „algjört brjálæði“.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert