Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, dró ekki af sér við að hafa Christine Blasey Ford að háði og spotti á fundi með stuðningsmönnum sínum í Mississippi í gærkvöldi. Tóku stuðningsmenn hans vel undir og hlógu ákaft að orðum forsetans.
Ford, sem er prófessor í sálfræði, hefur sakað Brett Kavanaugh, dómara sem Trump hefur tilnefnt í hæstarétt Bandaríkjanna, um kynferðislegt ofbeldi þegar hún var á tvítugsaldri. Hún bar vitni fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í síðustu viku. Trump gerði í gær grín að því hversu illa henni gekk að muna málsatvik nákvæmlega kvöldið sem meint árás var framin.
„Ég fékk mér einn bjór, er það ekki?“ sagði Trump á fundinum í Southaven í Mississippi í gær. „Hvernig fórstu heim? Ég man það ekki. Hvernig fórstu þangað? Ég man það ekki. Hvar var þetta? Ég man það ekki. Hvað eru mörg ár síðan? Ég veit það ekki. Ég veit það ekki. Ég veit það ekki. Ég veit það ekki,“ sagði Trump og uppskar mikinn hlátur frá stuðningsmönnum sínum.
„Í hvaða hverfi var þetta? Ég veit það ekki. Hvar er húsið? Ég veit það ekki. Uppi, niðri hvar var þetta? Ég veit það ekki. En ég fékk mér einn bjór. Það er það eina sem ég man. Og líf manns er í tætlum. Líf manns er í rúst.“
Árás Trump vakti fljótt athygli meðal gagnrýnenda hans sem segja að slíkar árásir séu hluti af skýringunni á því hvers vegna fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis þora ekki að stíga fram.
Miskunnarlaus árás á dr. Christine Blasey Ford skrifar Michael Bromwich á Twitter en hann var áður háttsettur embættismaður í bandaríska dómsmálaráðuneytinu en starfar nú sem prófessor í sálfræði.
„Það er ekki skrýtið að hún var skelfingu lostin við að stíga fram og að það sama á við um önnur fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis," segir hann jafnframt og bætir við að hún eigi heiður skilinn fyrir hugrekkið sem hún hafi sýnt.
Þegar Ford bar vitni fyrir dómsmálanefndinni á fimmtudag, en sent var beint út frá vitnaleiðslum nefndarinnar og horfðu 20 milljónir Bandaríkjamanna á hana, sagðist hún vera 100% viss um að Kavanaugh hafi reynt að nauðga henni sumarið 1982. Á þeim tíma voru þau bæði í framhaldsskóla en atvikið átti sér stað í partýi.
Kavanaugh bar einnig vitni og sagði að þetta hafi aldrei gerst og sakaði demókrata um að reyna að eyðileggja feril hans.
Þegar Trump ræddi við fréttamenn í Washington fyrr um daginn í gær sagði hann þetta vera „erfiða“ og „ógnvekjandi“ tíma fyrir unga menn í Bandaríkjunum. Þetta eru mjög ógnvekjandi tímar fyrir unga menn í Bandaríkjunum þar sem þú getur verið sakaður um að hafa gert eitthvað sem þú hefur ekki gert, sagði Trump meðal annars og bætti við að hann hafi alltaf talið að allir menn væru saklausir þar til sekt væri sönnuð en nú væri búið að snúa þessu við, það er þú ert sekur þangað til sakleysi þitt er sannað.
Bandaríska alríkislögreglan (FBI) rannsakar nú ásakanir á hendur Kavanaugh og ætlar að kynna niðurstöður sínar á föstudag. John Clune, lögmaður Deborah Ramirez, en hún hefur einnig sakað Kavanaugh um ósiðlegt athæfi, birti á Twitter í gærkvöldi að liðsmenn FBI hafi rætt við hana á sunnudag og haft með sér lista með nöfnum 20 einstaklinga sem geta stutt vitnisburð hennar.